Föstudagskjóllinn 3. Kafli: „Do you have clothes to sleep in?“

Föstudagskjóllinn 3. Kafli: „Do you have clothes to sleep in?“

Föstudagskjóllinn minn var keyptur í vor. Hann er því tiltölulega nýr í skápnum en ég keypti hann af því fatanúmerið var svo fallegt.

Ég hef sem sé grennst og er komin niður um eina til tvær stærðir. Stærðir eru nefnilega mjög sálrænt atriði. Það að sjá XL í stað XXL eða L í stað XXL getur klárlega gert mig ótrúlega hamingjusama. Svona er ég hégómleg inn við beinið.

Í dag er það kjóll og hattur, bara af því bara

Smátröll á leið á ball

Föstudagskjóllinn í dag er stjörnum prýddur krúttkjóll frá Dorothy Perkins vinkonu minni en við höfum átt í áratuga ástur og haturs sambandi. Við elskumst þegar ég finn föt sem líta ekki út eins og ég sé smátröll á leið á ball og hötumst þegar ég breytist í fyrrnefnt smátröll. Ég keypti kjólinn eins og áður sagði í vor en þá var verslunin á Íslandi að hætta og þessi fíni kjóll á spottprís. Mér hefur samt yfirleitt þótt Dorothy vinkona mín skemmtilegri í London heldur en hér heima. Það er eitthvað við það að vera á Oxford Street og tala ensku og allt það.

 

Þá er það shop till you drop

Í fyrstu ferðinni minni til London var ég með Siggu Maju vinkonu minni. Við höfðum lært setninguna „shop till you drop“ og gjörsamlega tileinkuðum okkur hana af lífi og sál. Svo svakalega að við vorum yfirleitt allt árið að borga þessar ferðir. En þarna í þessari tilteknu ferð þá rennur allt í upp fyrir mér að það er eitt sem ég var ekki búin að kaupa. Nefnilega bláröndóttu náttfötin sem ég varð að eignast. Ég sá fyrir mér að ég myndi sofa betur í þeim og væri líka óendanlega töff.

Þegar hér var komið sögu hafði safnast í kringum okkur dágóður slatti af konum, viðskiptavinum og starfsmönnum og í miðjum hringnum var ég. Svona eins og þegar maður er að dansa við vinkonurnar og ein er í hringnum, nema þetta var ekki dans.

St. Giles eða YMCA

Við gistum á St.Giles hótelinu sem í þá daga hét YMCA (já það er svona langt síðan). Á horninu rétt við hótelið er uppáhalds Dorothy Perkins búðin mín. Ég segi því stundarhátt við Siggu Maju að ég ætli að hlaupa niður á horn og kaupa náttfötin. Hún umlaði eitthvað á móti og heyrði eflaust ekkert hvað ég sagði því hún var í miðri birgðatalningu en eins og allar konur í verslunarferð vita þá er það grafalvarlegt mál. Ef hún hefði verið með ráði og rænu hefði hún aldrei sent mig eina, ég kunni nefnilega ekki að bera fram orðið PYJAMAS. Ég tala ágætis ensku en þetta tiltekna orð gat ég bara alls ekki sagt. Ég hafði nú ekki áhyggjur af því þar sem ég taldi þetta auðvelda ferð. Vippa sér inn, finna náttfötin, borga og fara. Hversu flókið?

Mynd frá síðustu öld en hatturinn er ennþá til og mikið notaður

Do you have clothes to sleep in?

Hvenær hefur svona nokkuð verið alveg eftir auðveldu bókinni?

Ég kem þarna inn, vandræðast um búðina og finn bara alls ekki þessi umræddu náttföt. Ég er greinlega eitthvað lost á svipinn því auðvitað kemur til mín starfskona að bjóða fram aðstoð.

Ég sagðist ekki þurfa neina aðstoð. Hún vildi samt fá að aðstoða mig. Hvað gerir maður þá? Jú maður umorðar setninguna, talar í kringum orðið. „Do you have clothes to sleep in?“ Ég man enn svipinn á konunni sem ekki varð neitt fallegri þegar ég bætti við „with blue stripes“.

Jebb, föt til að sofa í með bláum röndum.

Dansað við vinkonurnar

Afgreiðslukonan vildi fá nánari skýringu (mér fannst þetta og finnst enn nokkuð auðskilið) og ég reyndi að koma þessu betur frá mér og einhvern veginn fattaði hún að ég kynni ekki að segja pyjamas.

Þegar hér var komið sögu hafði safnast í kringum okkur dágóður slatti af konum, viðskiptavinum og starfsmönnum og í miðjum hringnum var ég. Svona eins og þegar maður er að dansa við vinkonurnar og ein er í hringnum, nema þetta var ekki dans. Þessu fólki öllu fannst alveg ótrúlegt að ég kynni ekki þetta orð og ákváðu að nú skyldi ég læra það.

Eldrauð í framan stóð ég því og tafsaði á orðinu fram og til baka, þar til úr var skorið að þetta væri fullkominn framburður hjá mér.  Starfskonan duglega skaust og náði fyrir mig  í bláröndótt náttföt sem ég átti í mörg ár og notaði mikið, óx eiginlega upp úr þeim.

Þarna byrjaði sem sagt vinskapur minn og Dorothy Perkins, hófst með bláröndóttum náttfötum og lauk með bláum kjól. Eða kannski heimsæki ég hana næst þegar ég fer til London, það er aldrei að vita.

Ákvað að leyfa ykkur að sjá mynd af mér í þessum frábærum náttfötum og takið eftir húfunni, þetta er sama húfan og ég er með hér að ofan. Hún er því orðin nokkurra áratuga gömul og er mikið notuð og ég er alltaf jafn glæsileg með hana, eða sko mér finnst það…

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest