Föstudagur aftur og nýbúinn. Hvert fer tíminn eiginlega? Jæja, það sem er gott er að þá er kominn tími á að skipta um kjól. Að vísu er ég ekki búin að vera í sama kjólnum í heila viku, auðvitað ekki, hvað haldiði eiginlega að ég sé?
Sorg og gleði
Flott vinnuumhverfið mitt en ég er nú samt tiltölulega glaðleg samtKjóli dagsins fylgir ákveðin tilfinningasemi. Ég fór marga hringi með það hvort ég ætti að fara í honum í dag eða seinna. Ákvað svo að sorg og gleði eru hvorutveggja partur af því að vera til og það er ekki hægt að vera glaður alltaf.
Kjóll dagsins var nefnilega keyptur fyrir hana mömmu mína sem tók upp á þeim óskunda á þessum degi fyrir einu ári að hreinlega deyja.
Þetta kom okkur öllum að óvörum og enginn fjölskyldumeðlima hafði reiknað með að þessi stund væri bara allt í einu komin (takið eftir ég sagði ekki „vonast eftir“ af því pabbi er alltaf að skammast yfir að fólk noti „vonast til“ í rangri merkingu) og nú er ég að passa mig.
Mér finnst því eiginlega tákrænt að vera í þessum kjól í dag og fara svo að heimsækja hana á eftir í fallega Sólarlandið.
Föstudagurinn 15. september 2017
„Svarti” jarðarfarar kjóllinnVerslun: Kjólar og konfekt
Verð: 8900 kr.
Ég ætlaði reyndar ekki að kaupa þennan kjól eða bara nokkurn kjól fyrir ári síðan. Ég ætlaði að vera í þessum frá síðasta föstudegi en allt í einu langaði mig ekki til þess og fimm mínútum fyrir lokun búðarinnar skutumst við systir inn í búð til að kaupa svartan kjól sem ég hafði séð á Facebook og fannst gjörsamlega vera það sem mig vantaði.
Sá kjóll reyndist svo ekki passa mínu vaxtarlagi. Ha? spyrjið þið í forundran, spáir þú einhvern tíma í því? Já, sko (veit að það á ekki að segja sko en það passar svo vel þarna) þegar maður kemst ekki í kjólinn af því handvegurinn er svo þröngur þá er annað hvort gífurlegt vansnið á flíkinni eða hún hreinlega of lítil.
Ég vildi að ég gæti sagt að um vansnið hefði verið að ræða en þá væri ég að ljúga. Mínir yndisfögru upphandleggir voru bara hreinlega of þykkir (lesist feitir).
Klikkað kjóladrama 101 á síðustu stundu
Hvað var til ráða? Búðin að loka og ég kjóllaus! Við systir geystumst um búðina og toguðum í hverja flíkina á eftir annarri þar til ég dró þennan út.
Já, já sagði systir, þessi er rosalega jarðarfarlegur og fínn. Drífa sig, sjúbb, sjúbb! Kjóllinn í poka, ég með hann heim og hengdi hann þar upp í skáp. Viku síðar dró ég kjólinn fram og þegar ég ætlaði að klæða mig í hann tók ég eftir því að svarti liturinn var eitthvað skrítinn. Eitthvað svo öðruvísi en þetta svarta sem hann lá upp við. Ég þaut út í glugga í dagsljósið og ómægod kjóllinn er ekki svartur hann er BRÚNN! Ég hringi í systur alveg í skelfingu og æsingi og segi, tókstu eftir að kjóllinn er brúnn? Já, já segir hún, auðvitað sá ég það, ég hélt þú vildir breyta til! Breyta til? Breyta til? Hver breytir til og fer úr svörtu í brúnt!!? Systir hafði engan tíma til að taka þátt í þessari skelfingu, þurfti að stjórna því að allt strákagengið á hennar heimili væri sómasamlega til fara á þessum degi.
Ég horfði á kjólinn og fnæsti smá, brúnn kjóll. Jæja þá, ég keypti hann til þess að kveðja mömmuna mína og þá fer ég bara aldrei í hann aftur (drami 101 þið vitið). Nema kjóldruslan er hin fínasta flík þó hann sé brúnn. Ég er búin að nota hann alveg fullt og er ekki frá því að í raun klæði liturinn mig betur en svart þó ég myndi aldrei viðurkenna það fyrir nokkrum manni.
Beinagrindur og gleði
Í dag er það því þessi kjóll og til þess að aðlaga hann deginum dró ég fram brúnu beingrindarleggingsbuxurnar úr Curvy (vá hvað þetta er langt orð) mínar því þær voru keyptar í vetur, spes til að nota með þessum kjól. Svo ætla ég að fara út í blómabúð og kaupa fallegar rósir handa mömmu. Það er allt í lagi að fara í beingrindarbuxum í kirkjugarðinn af því hún er í Sólarlandinu fallega í Öskjuhlíðinni og það eru engar grindur þar!
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.