Föstudagskjóllinn 10. kafli: Með bóndarós á rassinum

Í dag er tíundi föstudagurinn og því tilvalið að draga upp einn gamlan og góðan kjól. Þetta er kjóll frá spænska merkinu Desigual og keyptur fyrir 8-10 árum. Það var í Akureyrarferð með nornunum vinkonum mínum. Í þessum ferðum var alltaf kíkt í nokkrar búðir og síðan beint til spákonu á eftir. Góðar ferðir. Sólrún farðu að flytja heim svo við getum tekið upp þráðinn að nýju!

Spænska merkið sem vinnur svo vel með liti og mynstur

Þessi kjóll er því orðinn nokkuð aldraður en hann er samt uppáhaldskjóll og hefur þolað tímana tvenna í þeirri merkingu að stundum er hann of lítill og stundum er passlegur. Það er munstur að framan og á ermunum og svo er þetta dásamlega blóm á rassinum.

Desigual er uppáhalds

Desigual er annað uppáhaldsmerki þó ég hafi ekki alltaf átt mikið frá þeim. Það sem er svo skemmtilegt við þetta merki eru litirnir og hvernig þau blanda saman efnum og munstrum. Þverbrjóta oft reglur og einhvern veginn gengur það oftast upp. Þessi kjóll er einfaldur en mér finnst hann samt smart.

Stelpurnar í fiskinum

Talandi um lítil og stór föt. Í eldgamla daga þá vann ég ásamt Marín vinkonu minni á sumrum í Ísbirninum úti á Granda.

Við mættum þar um leið og skóla lauk á vorin og hættum kannski tveimur dögum fyrir skólabyrjun að hausti. Við tókum engin frí og neituðum engri vinnu. Við áttum pening.

En gallinn við að eiga pening á þessum tíma (yfir sumarið meðan við vorum að vinna) var að við gátum ekki eytt þeim í neitt. Það var allt lokað þegar við vorum búnar að vinna. Á tímabili fórum við alltaf í Hagkaup sem var í Kjörgarði af því þar var opið aðeins lengur og við gátum eytt einhverju smá. Það sem var til og passaði okkur voru dömubindi og sjampó. Þær birgðir dugðu allan veturinn sem var jú ekki slæmt.

Gallabuxur eða stretsbuxur

Þessi kjóll býður upp á bóndarós á rassinum

Það voru sem sagt engar fatabúðir opnar enda voru kannski ekki svo margar sem höfðuðu til okkar. Við fórum stundum í Karnabæ og stundum í Fakó (man ekki hvernig það var skrifað). Eitt sumarið hins vegar opnaði ný búð. BLONDIE. Ó mæ god hvað hún var æðisleg! Við vinkonurnar lágum á gluggunum (því það var jú lokað þegar við komust). Þarna fengust æðislegar stretsgallabuxur sem við fjárfestum í eftir mikla umhugsun og pössuðum vel. Áður fengust bara harðar buxur úr Hagkaup eða Karnabæ. Þið getið því ímyndað ykkur sjokkið þegar tveimur árum yngri stúlkur sem áttu nokkuð ríka foreldra mættu í fiskinn í svona BUXUM. Vá maður, við vorum í druslufötum en þær mættu í því sem var spari fyrir okkur. Svona er lífið misjafnt. Það sem ég ætlaði hins vegar að tala um var allt annað, ég af vega leiddist bara smá yfir í þessar æðislegu og margþráðu buxur, manstu Marín?

One size fits all

Það sem ég ætlaði að tala um var þegar einn daginn við fórum í Blondie og sáum þessa æðislegu boli. Við stóðum yfir þeim og reyndum að sjá númerin en sama hvað við reyndum við fundum ekki neitt. Við köllum því á afgreiðslustúlkuna og hún sagði að þetta væri ekkert mál. Þetta væri nefnilega bolir sem væru one size fits all. Ó já, ein stærð fyrir alla.

Við störðum á hana og svo á hvor aðra.

Ég hobbitinn rétt skríð yfir metrann og Marín langt yfir tveir metrar (OK aðeins orðum aukið en ég get sagt ykkur að þegar hún reiðist er hún alla vega þrír metrar eða meira). Síðan sagði önnur okkar (ég man ekki hvor enda er langt síðan þetta var) “One size? Fyrir okkur báðar? Sýnist þér einhver möguleiki að við pössum í sömu stærðina?” það var fátt um svör og við keyptum ekki boli.

Síðan þetta gerðist eru mörg ár, Marín er enn tveir metrar og ég er enn hobbiti en núna er ég mun feitari en þarna á þessum tíma. Enn eru hins vegar seldar flíkur sem við eigum báðar að passa í samkvæmt sölumönnum. Ekki bara við tvær, heldur líka fullt af öðru fólki sem er líka allt öðru visi en við í laginu.

Allir passa í það sama!

Share on facebook
Share on twitter
Share on pinterest

Færsla: Föstudagskjóllinn 10. kafli: Með bóndarós á rassinum