Föstudagskjólinn 5. Kafli: Segðu það með blómum!

Föstudagskjólinn 5. Kafli: Segðu það með blómum!

Jibbí jei, það er aftur kominn föstudagur og ég má skipta um kjól. Þar sem melónukjólinn (Smashed Lemon) þótti nokkuð flottur ákvað ég að taka bara strax annan melónukjól en þessi er samt allt öðru vísi. Blómalega sumarlegur. Ég hef aldrei farið í hann fyrr enda er ég eiginlega eins og ég sé ólétt í honum en ég lofaði að láta það ekki á mig fá. Kannski er hann meira sumar, ég veit það ekki og mér er líka alveg sama.

Krumpur eða fellingar

Flottur í sniðinu

Ef myndin af kjólnum heppnast almennilega þá sjáið þið hvað hann er skemmtilegur í sniðinu. Það eru svona krumpur í annarri hliðinni og fyrir vikið koma svona fellingar yfir þykkasta (lesist feitasta) hlutann á mér.

Ef hann væri bara beinn í sniðinu þá gæti ég ekki verið í honum, það er nú eiginlega bara þannig. En svona sleppur hann alveg. Svo er hann með stuttum ermum en samt nógu löngum til þess að það er hægt að vera í honum án þess að vera í peysu (eða sko þær sem eru aðeins minni um sig miðjar en ég)!

Melónurnar klikka ekki

Þar sem þetta er melónukjóll þá er líka hugsað fyrir smáatriðum inni í kjólnum (nei ekki mér, ég get ekki flokkast sem SMÁatriði). Það er sem sagt brjóststykki sem nær niður fyrir brjóstkassa og er líka að aftan. Kjóllinn er því tvöfaldur yfir brjóstadæmið og þetta er ekkert svona flaksandi dula sem er alltaf fyrir, nei þetta er alvöru sem leggst bara sjálft og maður þarf ekki að laga neitt. Ég er nokkuð viss um að margar vita hvað ég meina.

Eftir vinnu eða eftirvinnu kjóll?

Þetta er kannski ekki beint föstudags vinnu-kjóll. Kannski frekar svona föstudags eftir vinnu kjóll. Það er allt í lagi því dagurinn hlýtur að klárast að lokum og þá verður eftir vinnu og ég verð bara rosa fín. Þarf ekkert að fara heim og skipta um föt áður en ég fer og syng með Rocky Horror Picture Show niðri í bæ. Ef ég byggi í Bretlandi þá færi ég beint á kokteilbarinn með vinnufélögunum en þar sem það er ekki raunin þá fer ég bara í bíó með vinkonunum. Það er nefnilega alveg synd að nota ekki tækifærið þegar maður er búin að dressa sig svona upp.

Að klæða sig upp

En svo á maður auðitað að vera duglegri að dressa sig upp. Við erum ekki alltaf á árshátíðum, eða alla vega ekki ég. Ef ég geymdi fínu fötin mín bara fyrir svoleiðis dæmi þá myndi ég aldrei nota þau. Amma mín Guðrún, bjó á Presthólum í Norður Þingeyjarsýslu. Næsti bær við hana var Kópasker og þar var kaupfélag. Amma fór ekki í kaupfélagið í hverri viku. Ó nei. En þegar hún fór þá klæddi hún sig alltaf upp á. Man hvað mér fannst það frábært þegar amma kom fram í betri fötunum og ég vissi að nú var hún að fara í kaupfélagið.

Eigum að njóta þess að vera fínar

Stuttar ermar og blómleg kona í góðum fílíng

Við eigum að gera meira af þessu, njóta þess að vera fínar og flottar. Skiptir engu máli hvernig við erum vaxnar, svo framarlega sem okkur finnst við vera fínar. Svo er það annað. Þegar maður fer að njóta svona þá fer maður smá saman að sættast við skrokkinn sinn. Það er ekki eins og hann sé að fara neitt, eins gott að klæða hann bara upp.

Annars er þetta kjóladæmi alveg meiri háttar. Ég er búin að heyra af nokkrum vinnustöðum sem hafa haft kjóladaga og einn hópurinn sendi mér myndir.

Topp næs. Elska kjóla (bara svona ef þið hafið misst af því) endilega sendið myndir!

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest