Síðasta vor var náttúrulegt útlit og pastellitir allsráðandi á tískupöllunum, en nú er farið að sjást meira af pönk áhrifum í gullfallegri smokey augnförðun.
Það að skapa flott smokey útlit er alls ekki erfitt, en í eftirfarandi skrefum og með réttu vörunum getur hver sem er náð því. Ég ætla að lýsa hér í 7 skrefum hvaða aðferð mér finnst best en í raun eru þær óteljandi. Grunnvörurnar sem þarf eru:
- Svartur eða dökkur blýantur
- Svartur eða dökkur augnskuggi
- Vanillulitaður ljós augnskuggi
- Svartur maskari
Mér finnst gott að nota primer á augnlokið til að halda skugganum á og forðast að hann hrynji niður.
- Byrjaðu á því að gera línu við augnhárin (frekar þykka).
- Dreifðu úr blýantslínunni með “smudge” bursta, það er líka hægt að nota eyrnapinna.
- Taktu svartan augnskugga og settu yfir blýantslínuna og upp á augnlokið, dreifðu vel úr.
- Settu augnskuggann með mjórri bursta undir augað og svartan blýant í táralínuna.
- Því næst dreifirðu vel úr augnskugganum og mótar vel með blöndunarbursta, og passar að engin skörp skil sjáist og tengingin á innri og ytri augnkrókum sé til staðar. .
- Mér finnst oft fallegt að setja ljósan highlight á augnbeinið, og til þess nota ég ljósan augnskugga í vanillutón, ekki alveg hvítan.
- Svo seturðu 2-3 lög af maskara á augnhárin og Voila! Þú ert tilbúin.
Hér fyrir neðan er svo myndband með Kim Kardashian og förðunarfræðingnum hennar, en þau sýna hvernig hægt er að ná hennar útgáfu af smokey förðun.
Endilega prufaðu þig áfram og leyfðu ímyndunaraflinu að ráða…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=Zg8ZEXqsgJE[/youtube]
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com