Ég hef alltaf verið mikil pjattrófa. Ætli áhuginn hafi ekki verið til staðar frá því að ég man eftir mér en um 7 ára aldur fór ég að stelast í varalitina í snyrtibuddu móður minnar (henni til ómældrar ánægju!) og fór að skapa listaverk á andliti mínu og fljótlega annarra.
Síðan hefur áhuginn vaxið, dafnað og hæfileikarnir vonandi aukist! Ég tók af skarið í haust og ákvað að fara loksins í skóla í Mood Make Up School eftir að hafa íhugað að læra þetta í mörg ár. Ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun en fagmennska er í hámarki þar, kennararnir alveg frábærir og nemendur fá tækifæri á því að fara með í skemmtileg verkefni. Það eru líka sannkölluð forréttindi að fá að læra það sem maður elskar!
Fyrir mér er förðun ákveðið form af list og ég kýs að koma fram við fagið sem slíkt, enda mikill listaunnandi. Í stað þess að mála striga, mála förðunarfræðingar fólk! Það er ekkert skemmtilegra en að kalla fram ákveðna stemmingu og fegurð með förðun, hvað sem verkefnið eða tilgangurinn er!
Ef ég ætti að nefna einhver “mistök” sem konur gera við að mála sig, þá er það að hugsa málið þannig að þær þurfi að hylja allt og setja sem mest af öllum vörum. Það gæti ekki verið fjær upprunalega tilganginum að mínu mati. Förðunin ætti að kalla fram það fegursta í hverri konu (eða manni!) en ekki hylja það.
Auðvitað er skemmtilegt að gera eitthvað óhefðbundið og mála sig kannski meira suma daga en aðra. Ég mæli með því að hver og ein kanni hverjar sínar sterkustu hliðar eru og hvað henni sjálfri finnst flott, jafnvel með aðstoð förðunarfræðings, snyrtifræðings eða jafnvel á netinu.
Það sem mér finnst fallegast í förðun er þegar húðin ljómar og er heilbrigð, en restin af andlitinu fer eftir því hvernig stuði ég er í þá stundina. Stundum finnst mér náttúruleg förðun eiga best við, stundum langar mig að gera eitthvað flippað og allt þar á milli! Það fer líka mikið eftir því hvað manneskjan sem ég vinn með vill. Svo má ekki gleyma því að fegurðin kemur innan frá og það skiptir mestu máli að fólki líði vel í eigin skinni.
Eins og sést hér á myndunum fyrir neðan hef ég fengið tækifæri til að vinna með mögnuðum ljósmyndurum, fyrirsætum og öðru fagfólki. Myndirnar senda ólík skilaboð og ég dýrka að engin tvö verkefni eru eins.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com