Sannleikurinn er sá að með árunum slaknar á húðinni og við fáum fínar línur í andlitið. Þó að við tökum þessum breytingum fagnandi og viljum eldast með reisn að þá eru ýmis ráð varðandi förðun sem hægt er að fara eftir til að bera aldurinn vel og virðast frísklegri og unglegri.
Rakakrem
Mikilvægur partur af förðunarrútínunni. Með aldrinum þurrkast húðin örlítið upp þannig að nauðsynlegt er að setja á sig gott rakakrem áður en þú farðar þig.
Fljótandi hyljari
Kökuhyljari á það til að setjast í fínar línur og gera þær ennþá meira áberandi. Þó þetta sé að sjálfsögðu persónubundið þá er gott að velja fljótandi hyljara sem frískar þig upp og hylur án þess að setjast í línur.
Gultóna farði
Hægt er að velja á milli gultóna og rauðtóna farða og fyrri kosturinn er talinn betri fyrir konur 40+. Hann gefur húðinni hlýleika og hún virðist um leið unglegri.
Hóflegur farði borinn á með svampi
Konur freistast oft til að nota þykkt lag af farða til að hylja sem mest og farða í kökuformi. Þetta getur gert misfellur ennþá meira áberandi og það rétta er að nota rakan svamp til að bera farðann á svo þú fáir fallega áferð.
Slepptu púðrinu (nema rétt yfir farðann)
Ekkert lætur okkur virðast eldri en of mikið púður. Safnaðu því fljótandi- og kremformúlum í snyrtitöskuna, hvort sem það eru farðar, kinnalitir eða hyljarar.
Brettu augnhárin
Það að bretta augnhárin með augnhárabrettara opnar augun og birtir upp augnsvæðið.
Brúnn augnblýantur í staðinn fyrir svartan
Svarti augnblýanturinn getur minnkað augun og sá dökkbrúni gefur sömu áhrif en á mýkri hátt. Gerðu línu með blýantinum með fram augnháralínunni og mýktu hana svo upp með bursta eða eyrnapinna.
Ekki forðast sanseringu
Blautir og kremaðir sanseraðir augnskuggar henta einstaklega vel til að birta örlítið yfir andlitinu og sniðugt að nota ljósa sanseraða liti í innri króka augnanna til að birta yfir augunum.
Prófið þessi ráð heima og sjáið hvað aðferðirnar breyta miklu!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com