Ég er reglulega spurð þessarrar spurningar „hvað er primer og tilhvers þarf ég að nota hann“ af konum sem bæði koma til mín í make up og einnig í búðina sem ég vinn í.
Ég veit ekki hversu oft ég hef þurft að svara þessari spurningu og þá hvaða primer sé bestur, afhverju hann sé bestur og slíkt.
Primer er krem sem maður notar undir farða. Afhverju? Jú bara rétt eins og við grunnum áður en við málum hillur eða veggi til þess að málningin bæði endist lengur og líti betur út. Það er nákvæmlega það sem primer gerir fyrir húðina, farðinn helst lengur á og primerinn leiðréttir misfellur, litabletti og sléttir húðina jafnframt.
Eins hjálpar primerinn farðanum að haldast betur á í heitu loftslagi, mýkja og fríska upp húðina og hjálpar til við að halda farðanum sem náttúrulegustum. Eins hjálpar primer húðinni að draga síður í sig talkúm og lit frá farðanum ásamt því að talkúmið dragi olíur frá húðinni.
Til eru margskonar primerar fyrir ólík svæði húðarinnar, t.d fyrir augnsvæði, varir og andlit. Augnprimerar gera það að verkum að augnskugginn helst mun betur á og fer ekkert á flakk en varaprimer kemur í veg fyrir að varaliturinn fari að blæða út fyrir varirnar.
Þá geta primerar haft mismunandi áhrif á húðina, til dæmis er til primer frá MAC sem ég elska sem dregur úr roða í húðinni, þetta hentar mér ótrúlega vel þar sem ég er með rósroða og er stöðugt rjóð í kinnum.
Eins eru til primerar fyrir feita húð, fyrir venjulega húð og svo framvegis. Því ættu allir að geta fundið primer fyrir sig en best er að fara af stað í snyrtivöruverslun og fá dömurnar þar til þess að prufa á þér ólíka primera sem henta þínum þörfum.
Hafdís útskrifaðist með hæstu einkunn úr EMM school of make up árið 2006 og hefur síðan starfað sjálfstætt sem förðunarmeistari ýmist við myndatökur, TV make up eða að farða í heimahúsum fyrir brúðkaup, árshátíðir og þessháttar. Hafdís er einnig útskrifuð með BA próf í félagsráðgjöf og hyggur á meistaranám í mannauðsstjórnun. Hún hefur mikinn áhuga á fólki almennt og er mikið íþróttanörd. Hafdís er tveggja barna móðir í fæðingarorlofi en brallar þó margt meðfram því.