Arna Sirrý Benediktsdóttir er förðunarfræðingur og starfar í snyrtivöruversluninni Inglot í Kringlunni. Arna hefur óbilandi áhuga á snyrtivörum og öllu sem tengist fegurð og förðun. Hún fylgist vel með förðunartískustraumum og deilir hér með lesendum hvað verður “inni“ í vetur.
„Náttúruleg og ljómandi húð verður vinsæl í vetur eða hið svokallaða „no makeup-makeup” útlit. Það einkennist af fallegri og náttúrulegri húð og galdurinn er sá að ná að kalla fram þá fallegu eiginleika sem húð hvers og eins býr yfir.Til þess að ná fram þessu útliti er mikilvægt að hugsa vel um húðina og að finna fullkominn farða sem hentar þinni húð. Ferskjulitaðir eða bleikir kinnalitir og náttúruleg skygging á kinnbeinum fullkomnar svo útlitið,“ segir Arna.
Arna segir að stórar og áberandi augabrúnir verði áfram í tísku í vetur ásamt dökkum vörum eða dökkum augum:
„Ég mæli með að fólk noti hlutlausan varalit með dökkri augnförðun og öfugt, sem sagt hlutlausa liti á augun við dökka varaliti,“ útskýrir Arna. „Vínrauðar, plómulitaðar og “vampy“ varir koma svo sterkar inn í vetur og kisulaga smokey augnförðun er að ná auknum vinsældum.“
Smokey augnförðun þarf ekki endilega að vera svört, það kemur stundum betur út að nota liti eins og brúnan, grænan, fjólubláan og brons.
Arna nefnir fimm vörur þegar hún er spurð út í sínar uppáhalds snyrtivörur. „Inglot Makeup Wipes eru ómissandi þegar maður er latur og nennir ekki að þrífa húðina almennilega, þá eru þessir blautklútar frábærir. Þeir innihalda líka andlitsvatn og skilja húðina eftir mjúka og hreina. Svo er Face & Body farðinn frá MAC í miklu uppáhaldi hjá mér, hann er þunnur, tollir vel á húðinni og smitast ekki í föt,“ segir Arna.
„Þá er Brow Tech To Go blýanturinn frá Smashbox algjör snilld. Hann er einfaldur og þægilegur og hefur að geyma augnbrúnagel á hinum endanum.“
Arna hefur alltaf verið hrifin af brúnkuvörunum frá St.Tropez að eigin sögn. „Froðan er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hún er lyktarlaus og það er auðvelt að bera hana á húðina með sérstökum hanska frá St. Tropez,“ segir Arna sem er ófeimin við að nota brúnkukrem og kinnaliti til að lífga upp á húðina. „Í Inglot má svo finna gott úrval af fallegum kinnalitum, lit númer 51 nota ég til að skyggja andlitið. Sá kinnalitur inniheldur sanseringu og gefur húðinni ljóma,“ segir Arna að lokum.
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.