Samantha Chapman er önnur tveggja systra sem skipa förðunarteymið Pixiwoo en þær systur hafa sett ótal kennslumyndbönd á Youtube sem sýna hvernig á að farða og nota snyrtivörur…
…Ég hef fylgst með þeim í langan tíma og langaði því auðvitað að prófa förðunarburstana sem Samantha hannaði og setti á markað ekki alls fyrir löngu.
Á stuttum tíma hafa burstarnir náð miklum vinsældum vegna þess hve góðir og ódýrir þeir eru. Ég pantaði minn fyrsta bursta á netinu, augnskuggabursta sem kallast Shading Brush, og mér leist mjög vel á gæðin.
Núna eru burstarnir komnir til landsins, förðunaráhugafólki til mikillar gleði.
Burstarnir eru flokkaðir eftir litum sem gerir þá einstaklega auðvelda í notkun. Þeir burstar sem hafa gult skaft eru notaðir til að framkalla fullkomna húð, þeir sem hafa fjólublátt skaft eru fyrir augun og þeir sem hafa bleikt skaft eru notaðir til að leggja lokahönd á förðunina. Minn uppáhalds bursti er Expert Face Brush, en hann nota ég til að bera fljótandi farða á húðina.
Burstarnir hafa allir silkimjúk gervihár og eru 100% cruelty-free. Á heimasíðu Real Techniques má finna myndbönd af Samönthu þar sem hún sýnir hvernig burstana er best að nota.
Svo er víst systir Samönthu, Nic, komin með henni í lið og ætlar hún að hjálpa til við að fullkomna burstalínuna, því verður spennandi að sjá hvað kemur næst frá þeim systrum.
_____________________________________________________
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.