Þökk sé vinsældir “bjútí blogga” þá er hyljarinn að styrkja stöðu sína sem snyrtivara. Ég elska hyljara og flestir make up artistar sem ég þekki líka, þá finnst mér þetta svolítið vanmetin snyrtivara enda hygg ég á að skrifa mikið um þá.
Hyljari er alveg ómissandi í mína snyrtibuddu. Þó að ég setji ekkert annað á andlitið þá set ég smá hyljara í innri augnkrók og svo pínulítið við ytri, þetta hjálpar með að líta út fyrir að vera aðeins úthvíldari, augnsvæðið verður bjartara og lyftir augunum meira upp. Einnig set ég alltaf á nasavængina, þetta svæði verður fyrir meira áreiti og húðin þar er oft aðeins rauðari.
Svo ef það eru ójöfnur í húðinni, bólur eða ör þá er svo gott að geta notað hyljara.
Það eru svo ótal margar leiðir til að bera hyljarann á og engin ein leið réttari en hin. Þetta er spurning um hvað hentar hverjum og einum. Persónulega er ég hrifnust af því að nota pensil eða jafnvel tvo þegar ég nota hyljara, einn til að bera á og annan til að blanda/mýkja öll skil. Stundum nota ég puttana. Ástæðan fyrir að penslar hafa samt oftar vinninginn er að með puttanum þá er ég að hita vöruna, og svo er alltaf einhver húðfita á fingrinum en þetta tvennt getur breytt miklu svo sem endingu, hversu fínleg áferðin er, hvort það setjist meira í fínar línur, renni frekar til…
Ég nenni ekki að vera endalaust að skoða og hafa áhyggjur af því að laga þannig að með pensli þá veit ég að það verður aðeins fullkomnari áferð og lengri ending. Með hyljarann kláran tekst ég á við daginn og veit að ef það er smellt af mér mynd (tæknin og allir alltaf að smella af myndum) þá er ég ferskari fyrir vikið.
Ég hef alltaf bent vinkonum og viðskiptavinum á að fara oftar og spyrja í sérvöruverslunum, þar er lært fólk með brennandi áhuga á faginu og þau eru til í að hjálpa. En horfðu aðeins á hvernig starfsfólkið hefur sig til, þekkingin sést á hæfni þeirra til að vera með mikla eða áberandi förðun án þess að það sé grímu útlit. Eða þegar húðin ljómar og náttúrulegt útlit er vel gert og allt aðeins fullkomnað… þá má treysta á að þau geti gefið góð ráð.
Katla lærði tísku og ljósmyndaförðun hjá Línu Rut haustið 1994. Hún hefur mikinn áhuga á öllu sem tengist förðun, húð, tísku,útliti og hönnun. Katla hefur einnig sótt ljósmyndanámskeið, lært fatahönnun og saum og lokið einkaþjálfaranámi.
.