Farðar eru eins mismunandi og tegundirnar eru margar. Til þess að þín húð verði upp á sitt besta þá eru margir hlutir sem þarf að huga að við val á farða. Þetta eru til að mynda gerð, áferð og annað.
Hér eru nokkrar ábendingar um hvernig best er að velja farða eftir þinni húðgerð.
Litur
Liturinn á að falla inn í þinn húðlit. Ef þú vilt dekkja húðina örlítið, gerðu það þá með brúnkukremi eða sólarpúðri í stað þess að velja dekkri farða.
Feit húð
Olíulaus farði er besta valið fyrir feita húðgerð. Ef þú ert að berjast við bólur þá er einnig gott að hann þeki vel án þess að þú þurfir of þykkt lag.
Blönduð húð
Það er óhætt að nota farða með olíu, en passaðu þó að hann sé ekki of feitur. Þekja og form er persónubundin en oftast kemst blönduð húð upp með bæði fljótandi farða, kremfarða og púður.
Þurr húð
Þarf meiri raka og næringu en aðrar húðgerðir, þannig að passaðu þig á því að velja nærandi farða sem inniheldur olíu. Nauðsynlegt er að nota gott rakakrem undir farðann.
Vandamálahúð
Ef þú ert að berjast við rósroða, exem eða annað slíkt þá er sniðugt að kíkja á snyrtistofu og fá ráðgjöf með krem og farða sem er sérsniðinn að þínum þörfum.
_________________________________________________________________________________
Það er líka nauðsynlegt að prófa vöruna áður en þú kaupir. Biddu afgreiðslumanneskju um að setja örlítið á þig, og ekki vera hrædd við að prófa þig áfram með mismunandi tegundir þangað til þú ert ánægð.
Skoðaðu úrvalið í snyrtivöruverslunum og finndu fullkominn farða fyrir þig!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com