Fyrir konur sem eru orðnar 50 ára og eldri skiptir fegrun húðarinnar yfirleitt mikið meira máli en hefðbundin andlitsförðun.
Ég tók einmitt saman lista yfir 8 uppáhalds snyrtivörurnar mínar á síðasta ári og það var ekki fyrr en ég var búin með hann að ég tók eftir því að á listanum voru eiginlega bara vörur sem gera húðina fallegri. Aðeins tvö atriði á listanum voru maskari og sjampó. Allt hitt var húðfegrandi fínerí.
Það er nefnilega svo að eftir 40-50 árin þá missir húðin teygjanleika sinn og stinningu, kollagenfrumur (og aðrar frumur) eru ekki lengur jafn sterkar og þjappaðar og útkoman verður… hrukkur og slakari húð. Jei! (hóst).
Það er hægt að gera skemmtilegt test á teygjanleika húðar sinnar með því að klípa aðeins í húðfellinguna milli þumalfingurs og vísifingurs og sjá hvað húðin er fljót að ganga til baka. Á krökkum gerist þetta á nanósekúndu en hjá okkur sem eldri erum er líkt og allt sé bara í slow motion.
Það er aðallega tvennt sem eyðileggur eiginleika húðarinnar til að endurnýja sig og viðhalda stinningu: Reykingar og sólböð.
Forðastu hvorutveggja eins og þú getur þó hin árlegi áramótavindill megi halda sér og örlítið D-vítamínbað á sumrin. Ekki fara í ljós og alls ekki reykja að staðaldri. Best er auðvitað að sleppa því alveg (en auðvitað veit fólk þetta þó það fari ekki eftir því.)
Ef þú skyldir vera í þeim sporum að vera orðin 40+, horfa í spegilinn og hugsa OMG hvert fór andlitið á mér eiginlega þá er vel hægt að gera eitthvað í því. Þú getur gripið til ýmissa aðgerða og auðvitað fengið hjálp frá sérfræðingum líka en….
Hér eru nokkur ráð sem ég hef sankað að mér og reynt á eigin skinni, (bókstaflega) og get alveg mælt með.
1. Mataræði
Drekka vatn!! Settu ferskt grænmeti á diskinn á hverjum degi og reyndu eins og þú getur að sleppa djúpsteiktum, unnum mat, sykri og miklu salti (hækkar blóðþrýsting og eykur bjúg). Ef þú færð þér vín (sem má ekki vera oft) skaltu helst reyna að borða eitthvað feitt (osta og hnetur t.d) og salt með því til að binda vatnið – og drekka líka vatn með!
Þetta gera frönsku konurnar. Allar frumur líkamans elska og nærast á vökvun og súrefni (andoxunarefnum) og því meira sem við gefum þeim af hvoru tveggja, því frísklegri/unglegri verðum við í útliti.
2. Hreyfing
Gönguferðir og hreint súrefni eru besta meðalið við svo ótal mörgu. Líka hrukkum. Að vera utandyra er frískandi og gott en mundu að nota krem sem verja húðina fyrir sól og kulda. Sumum finnst gott að setja á sig feit krem fyrir sundferðir líka enda þurrkar klórinn mikið. Allt sem kemur blóðinu á hreyfingu er gott fyrir útlitið. Þannig að… hreyfum okkur!
3. Lífsstíll
Stress er mikið böl fyrir okkur nútímafólkið. Reyndu að slaka á eins mikið og þú getur. Fara í gott bað, púsla, lita, teikna, lesa fyrir börn eða barnabörn, hlusta á hljóðbók og föndra. Stress kallar á viðnám í sálinni og viðnámið veldur stífni og myndar oft hörkulegan svip sem er ekki beint fegrandi. Fyrir utan allt hitt. Stress less baby.
Gættu þess líka að fá alltaf nægan svefn. Ef þú ert í óreglu með svefninn þá skaltu reyna að leysa það sem allra fyrst. Farðu eftir heilræðum og reyndu að forðast svefnlyf. Hér eru nokkur góð ráð um svefn og hér eru 18 magnaðar staðreyndir um svefn og svefnleysi.
4. Húðumhirða
Rakakrem á hverjum degi, stundum tvisvar á dag. Skiptu reglulega um krem. Kannski áttu þrjár uppáhalds tegundir sem þú flakkar á milli en reyndu að prófa reglulega nýjar gerðir af kremum því þannig tekur húðin betur við virkninni. (Sama gildir fyrir sjampó og hár).
Krem gera mann kannski ekki unglegan per se en ef húðin er þurr þá verða línur og hrukkur alltaf meira áberandi og húðin er ekki eins frískleg ef hún er þurr. Krem virka á meðan maður notar þau og það má fá góð krem í flestum vöruflokkum. Sumar velja svo bara að nota lífrænar olíur eins og t.d. kókosolíu, laxer (castor oil) eða aðrar góðar og sjálfri finnst mér það allt í lagi ef þú fílar það. Mundu líka að bera alltaf á hálsinn, eyrnasnepla og bringuna, það er skrítið að vera slétt í framan en eins og hæna um hálsinn.
Sumar konur nota kornaskrúbb tvisvar í viku en athugaðu að það hentar ekki öllum þó skrúbburinn geri einstaklega góða hluti fyrir suma. Rósroði er t.d. algengur kvilli hjá eldri konum og þær ættu alls ekki að nota skrúbb.
5. Förðun
- Ástand húðarinnar er í fyrsta sæti. Hreinsaðu hana vel. Sinntu henni daglega. Enga leti!
- Notaðu góðan farða. Heldur í ljósari tón en of dökkum en það er líka gott að eiga tvo litatóna og blanda þeim saman ef þess þarf.
- Keyptu þér gott BB krem (mæli með t.d. L’Occitane).
- Ef þú vilt vera smá brún er gott að nota brúnkukrem en samt farða sem er tón ljósari yfir (mundu -ljósabekkir eru á bannlista.)
- Lærðu að skyggja fyrir sparitilefnin (e. countouring). Notaðu high-lighter efst á kinnbein og undir augabrúnir og augu.
- Lærðu að nota sólarpúður, til dæmis á þessu myndbandi frá Guerlain og æfðu þig.
- Youtube er endalaus uppspretta fróðleiks og þú mátt alveg leika þér og prófa þig áfram með allskonar förðun áður en farið er í sturtuna (það er líka fyrirtaks slökun). Prófaðu til dæmis að gera það sem er sýnt hér að ofan á kennslumyndbandinu.
Hér er að lokum safn mynda af konum sem eru að nálgast fimmtugsaldurinn og hver annari glæsilegri (fyrst birt 2013) og hér er smá samantekt sem Dóra sæta Welding gerði yfir uppáhalds yngingarmeðulin sín.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.