Við Pjattrófur erum duglegar að prófa snyrtivörur og ‘rótera’ þeim í snyrtibuddunni. Auðvitað eru alltaf vörur sem standa uppúr hjá okkur sem hægt er að mæla heilshugar með og höfum við í hyggju að gera þetta að föstum lið á síðunni. Hér eru mín persónulegu eftirlæti þessi misserin:
TOPP 5 listi í júní 2011.
1. Clarins – Instant Smooth Self Tanning: Það kom mér ekki á óvart að lesa að þetta nýja brúnkukrem væri alveg með því vinsælasta frá Clarins. Clarins Instant Smooth Self Tanning er sérlega ætlað fyrir andlit og kemur í samskonar umbúðum og andlitskrem frá merkinu. Lyktin er góð og það er ótrúlega auðvelt að bera það á þar sem áferðin er meðfærileg, þykk og ólík öðrum kremum sem ég hef prófað. Það kemur “instant” náttúrulegt glow af þessu brúnkukremi en þú þarft að nota það aftur næsta dag ef þú vilt meiri lit sem helst lengur. Í kreminu er jafnframt efni sem fyllir í svitaholurnar og gefur þannig húðinni jafna og fallega áferð.
2. Lancome – Rénergie Yeux Multiple lift fyrir augun: Þetta er stóra “hittið” frá Lancome í ár. Augnkrem og “hyljari” sem dregur verulega úr þreytumerkjum og línum í kringum augun. Maður þarf ekki meira magn en því sem nemur stærð á hrísgrjóni af kreminu og mjög lítið af grunninum sem lýsir augnsvæðið. Eftir á er notaður hyljari og útkoman er mjög “flawless”. Mér skilst að fyrsta sending hafi selst upp.
3. Hypnose Drama maskarinn: Ég er orðin talskona þess að nota óskaplega mikið af maskara svo lengi sem hann klessir ekki augnhárin saman. Ég kann vel við þetta dramatíska lúkk á augum og Hypnose Drama maskarinn frá Lancome stendur vel undir nafni… Mæli með honum, ef þú ert dama, gefin fyrir smá drama. Aðrir maskarar sem eru góðir í þetta eru t.d. Sexy Lace frá HR og Volume Express frá Maybelline.
4. YSL Teint Radiance farðinn: Þessi farði er í einu orði sagt æðislegur. Hann gerir húðina svo slétta og flotta um leið og hann dreifist frábærlega og skilur eftir sig fallegan ljóma. Fyrir utan það hentar liturinn mér mjög vel en það skiptir svo miklu þegar valinn er farði, þ.e.a.s. að liturinn tóni vel við eigin húðlit. Mæli með því að þú prófir þennan 😉
5. Batiste þurrsjampó: Þurrsjampóið hefur átt rosalegt “kombakk” á síðustu tveimur árum og engin furða. Þú úðar því í rótina og burstar og hárið fær um leið meiri fyllingu. Minnsta mál er að rúlla því upp í snúð og þú lítur út eins og milljón króna seðill á eftir 😉 Frábært fyrir þær sem “ættu” að þvo hárið daglega en vilja helst sleppa við það. Fæst í Hagkaup og víðar en maðurinn á bak við brúsann er Karl “snyrtigúru” Berndsen.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.