Eins og kannski hefur sést hér á Pjattinu elska ég hvernig Kim Kardashian er oft máluð! Mikið “smokey”, nema aðeins mildara og það er spilað mikið inn í að ná munúðarfullum augum, geislandi húð og frekar ljósum en vel mótuðum vörum.
Hulda Birna vinkona mín var svo góð að leyfa mér að mála sig í skref-fyrir-skref sýnikennslu á því hvað mér finnst gott að gera þegar ég er að farða í þessum stíl. Ég tek fram að ég farða ekki alltaf í nákvæmlega sömu röð og mæli með því að aðrir finni hjá sér hvað þeim finnst þægilegast að gera.
Húð
- Ég byrjaði á því að bera gott dagkrem á Huldu sem heitir Day Time og er frá MAKE UP STORE, það gefur húðinni raka og er gott undir farða.
- Ég bar meik með farðabursta í hringlaga hreyfingum, meikið sem varð fyrir valinu var Studio Sculpt Foundation frá MAC. Ég blandaði saman litum NC15 og NC45.
- Næst var að hylja smá bauga og misfellur, en Hulda er með góða húð svo að það var auðvelt verk. Ég notaði Cover All Mix hyljara frá MAKE UP STORE.
Augu
- Ég setti svarta línu við augnhárin með mjúkum Smolder blýanti frá MAC. Ég setti hann einnig í vatnslínuna.
- Ég dreifði úr línunni með litlum blöndunarbursta og setti því næst dökkplómulitaðan, sanseraðan augnskugga úr Baby Glam pallettu frá Lancome yfir línuna og á augnlokið.
- Ég mótaði augabrúnirnar með dökkbrúnum, möttum augnskugga og mótaði sama lit í skyggingu meðfram augnlokinu. Liturinn heitir Brun og er frá MAC. Sama lit setti ég undir augun með mjórri augnskuggabursta.
- Svo dreifði ég úr skyggingunni og mótaði hana betur með blöndunarbursta. Ég setti ljósasta litinn í Baby Glam pallettunni inn í augnkrókana og á augnbeinið, og blandaði honum vel við dökku litina svo að engin skörp skil væru til staðar.
- Ég bretti uppá augnhárin og setti 2 umferðir af Hypnose Drama maskara á þau frá Lancome.
Skygging og varir
- Eftir augnförðuna bar ég Reflex Cover hyljara frá MAKE UP STORE undir augun og niður á kinnar, en hann birtir upp augnsvæðið og sléttir úr því.
- Ég skyggði kinnbeinin með möttu sólarpúðri, Bronzing Powder frá MAC í Matte Bronze. Einnig skyggði ég meðfram nefi með mjórri bursta.
- Ég setti fölbleikan kinnalit á “eplin” á kinnunum og dustaði highlight púðri létt ofan á kinnbein, og fyrir ofan augabrúnir til að fá fallegan ljóma.
- Næst dustaði ég örlitlu gegnsæju púðri á T-svæðið (enni, nef, höku) til að fjarlægja aukaglans af farðanum og festa hann betur.
- Ég mótaði varirnar með brúnbleikum varablýanti, Nice’n’Spicy frá MAC, setti Plink varalit á þær og einnig Rich and Witty Glamglass varagloss.
Og hún var tilbúin!
Mæli með þessu lúkki fyrir djammið eða eitthvað slíkt, alltaf gaman að vera sæt og með kisuaugu. Svo er hægt að toppa útlitið með fallegum gerviaugnhárum, prófaðu sjálf!
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com