Förðunarburstar koma í mörgum stærðum, gerðum og tegundum. Þeir eru nauðsynlegir til að ná sem bestri áferð með allskyns förðunarvörum.
Mér finnst þeir ómissandi í mitt starf sem förðunarfræðingur og fyrir sjálfa mig. Þeir eru þægilegir í notkun og draga einnig úr sýkingahættu.
Förðunarburstar koma í öllum stærðum, gerðum og tegundum og er um að gera að kanna markaðinn og sjá hvað er í boði og í hvaða verðflokkum. Verð fer eftir gæðum bursta og þó margir þeirra séu í dýrari kantinum er vert að horfa til þess að þeir geta enst í mörg ár með góðri umhirðu.
Þó eru til merki sem selja bursta í góðum gæðum ódýrt eins og t.d. Crown Brushes í Bretlandi. Annars held ég mikið upp á bursta frá merkjum eins og til dæmis M.A.C. og Bobbi Brown og þeir nýtast og endast mjög vel.
Algengar gerðir af förðunarburstum
Meikburstar (Foundation brush): Til í mörgum gerðum, bæði flatir og tvískiptir (Duo fiber) Þeir flötu eru oftast með gervihárum (synthetic) og hin gerðin með gervihárum í bland við geita og/eða hestahár. Henta fullkomlega í allar fljótandi og kremkenndar gerðir farða.
Púðurburstar: Oftast í stærri kantinum, mjúkir og gerðir úr hesta og/eða geitahárum. Henta bæði í föst og laus púður og kinnaliti.
Skyggingaburstar fyrir andlit: Oftast úr hesta og/eða geitahárum. Með skáskornum enda þannig að betra er að skyggja með þeim, notaðir í sólarpúður/skyggingar og kinnalit.
Hyljaraburstar: Svipaðir og flatir meikburstar en minni. Oftast úr gervihárum, notaðir í ásetningu hyljara.
Augnskuggaburstar: Koma í mörgum gerðum, oftast úr hesta og/eða geitahárum og stundum í bland við gervihár. Hægt er að fá flata augnskuggabursta, litla, stóra, “blending” bursta, skáskorna og þar fram eftir götunum. Einnig er hægt að nota blöndunarburstana í hyljara.
“Smudge” burstar: Notaðir til að dreifa úr augnblýöntum og augnskugga, mjög oft notaðir í smokey augnförðun. Mjög þéttir og í minni kantinum.
Eyeliner burstar: Stuttir og mjóir með fáum hárum, koma þó í nokkrum stærðum.Hægt að nota í fljótandi, blautan og svokallaðan kökun eyeliner.
Augnbrúnaburstar: Stuttir, skáskornir, stífir með gervihárum. Tilvaldir í augnbrúnalit og til að dreifa úr augnbrúnablýöntum. Þá er líka hægt að nota t.d. í gel-eyeliner.
Varalitaburstar: Hægt að fá bæði úr gervihárum og geitahárum. Margar stærðir í boði og notaðir til að bera varalit og gloss á varir.
Umhirða
Gott er að þvo bursta til einstaklingsnota vikulega upp úr sjampói og setja reglulega hárnæringu með. Þetta dregur úr sýklamyndun og lengir líftíma burstanna. Förðunarfræðingar þvo/sótthreinsa að sjálfsögðu bursta eftir hverja notkun.
Eins og þú sérð er úrvalið mikið og það sem er æðislegt við góða bursta er að þá er hægt að nota í margskonar tilgangi svo að óþarfi er að kaupa allar gerðir.
Ég mæli með því að fjárfesta í góðum burstum, þó það séu ekki nema örfáir í það allra “mikilvægasta”.
Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir er förðunarfræðingur og útskrifaðist með hæstu einkunn úr MOOD Make Up School með áherslu á tísku- sjónvarps- og ljósmyndaförðun og tók Airbrush námskeið í sama skóla. Hún er sjálfstætt starfandi og tekur að sér hin ýmsu verkefni, allt frá einstaklings- og brúðarförðunum upp í tímarit og auglýsingar. Einnig vinnur hún fyrir Bobbi Brown á Íslandi sem sölustjóri.
— Vantar þig förðun og/eða persónulega förðunarráðgjöf? Hafðu samband á gunnhildur@gb-makeup.com