Ótrúlegasta fólk á það til að þjást af allskonar komplexum og hræðslu þegar kemur að bólferðum. Þá er átt við bæði fyrir leikinn og meðan á honum stendur.
Þegar við notum orðin komplexar og hræðsla þá erum við ekki endilega að meina að viðkomandi rúlli sér í kuðung og sjúgi puttann eða öskri eins og maður myndi gera ef ljón væri að fara að gera sig líklegt til að stytta líf manns. Nei, þessir komplexar og þessi hræðsla er oftast öll í höfðinu og lætur lítið á sér bera svona framan af, eða þangað til fólk er komið upp í rúm.
Ótti við lélega frammistöðu í rúminu
Karlmenn geta til dæmis verið hræddir við að vera ekki nægilega vel niður vaxnir, að geta ekki fullnægt konunni, að fá það of snemma og margt fleira. Konur skelfast sína eigin appelsínuhúð, fitu, lítil brjóst og svo framvegis. Bæði eiga það til að þjást af því sem á ensku er kallað Performance Anxiety sem útleggst sem sviðskrekkur á íslensku, þó það orð sé kannski óviðeigandi í þessu tilfelli þar sem enginn er á leiðinni upp á svið að gera dodo.
Hjá flestu fólki vindur þessi ótti upp á sig. Hann byrjar sem einhver smá komplex sem síðan springur út í risa komplexa flugeldasýningu sem eitt atvik getur verið kveikjan að. Segjum til dæmis að Siggi nái ekki holdrisi í eitt eða tvö skipti. Í þriðja skiptið fær hann svo miklar áhyggjur að áhyggjurnar hafa bein áhrif á typpið og það neitar að performera undir þessari áhyggjupressu. Þar með verða hugsanirnar Sigga enn fleiri, hann hugsar og hugsar og hugsar og á endanum er félaginn sokkinn inn í djúpan vítahring ofur sjálfsmeðvitundar sem tekur allt fjör og alla spennu úr því sem áður hét kynlíf.
Viðmælandi greinarhöfundar (greinarhöfundur er nemandi í félagsfræði) viðurkenndi að hafa lent í slíkum vítahring með sjálfan sig:
„Þetta byrjaði fyrir svona ári þegar ég var að fara að sofa hjá konu sem ég hafði lengi verið frekar skotin í. Ég var í góðu stuði þegar ég ætlaði að fara niður á hana en þá gaus upp mjög óþægileg lykt. Mér fannst þetta svo óþægilegt að ég missti alla löngun og það var sama hvað ég reyndi, ég náði honum alls ekki upp. Mér fannst þetta mjög vandræðalegt, sérstaklega af því mig hafði langað svo lengi til að vera með henni og framan af hafði allt gengið vel. Seinna fór hún til læknis og fann út að þetta var eitthvað vesen sem ég man ekki hvað heitir… en hvað um það… eftir þetta atvik er ég búinn að vera í ferlegum vandræðum með hann. Ég get náð honum upp og fæ það þegar ég stunda sjálfsfróun, en þegar ég er með konu þá tekur annað við. Ég veit að þetta er allt í hausnum á manni en það er bara ekki nóg að vita það, maður verður að gera eitthvað í því. Svo getur komið að þeim punkti að maður getur ekki gert neitt og þá verður maður einfaldlega að fá hjálp. Þetta rann upp fyrir mér um daginn þegar ég ætlaði að fara að sofa hjá vinkonu minni. Ég gerði vel við hana að neðan og fékk strax hálfgerða standpínu, en um leið og ég fór að hugsa um hvað ég væri að gera þá missti ég hann niður. Þear hún fór svo að reyna að ná honum upp þá fann ég að ég var með alveg dúndrandi hjartslátt og svo pældi ég bara í því hvernig líkaminn á mér var alls ekki að bregðast við eins og ég vildi. Það að ég skyldi bara sitja og pæla í því hvað ég var orðin steiktur fékk mig til að langa til að fara til sálfræðings, eða að minnsta kosti reyna að tala við einhvern um þetta og sjá hvort það sé ekki hægt að gera eitthvað.”
Sérfræðingar mæla algerlega með því að fólk reyni að fá einhverja hjálp ef svona er ástatt fyrir því vegna þess að svona ofurmeðvitund á bara alls ekki við á sviði kynlífsins. Þar að auki getur hún leitt til sjálfsniðurrifs sem kemur svo niður á fleiri sviðum lífsins. Þannig að það er um að gera að kýla á sála ef þú ert búin að mála, eða sleikja þig, út í eitthvað kynferðislegt horn.
Mismunandi komplexar og áhyggjur
Fæstir eru þó svona langt gengnir með komplexana. Flestir eru bara með einhverja smá komplexa sem lýsa sér í mörgu. Greinarhöfundur tók að sér það viðkvæma rannsóknarverkefni að ræða við nokkra opinskáa einstaklinga sem höfðu ekkert á móti því að viðurkenna komplexana. Þar kom margt í ljós og sumt á óvart.
Kjartan, 34 ára verkamaður, hræddur við samúðardrætti:
“Ég er nokkurnveginn laus við svona komplexa og hef alltaf verið það. Reyndi einu sinni að vera með “Vagina Dentata” komplex [Innsk: ótti við tenntar píkur. Að sjálfssögðu ein af hinum sjúku kenningum Sigmundar Freud] af því mér fannst hann svo töff, en það gekk ekkert upp. Og þó… ég er kannski með einn smá komplex og það er ótti við samúðardrátt. Að stelpa sé kannski að sofa hjá mér af einhverri samúð en ekki af greddu. Hvern langar til að láta sofa hjá sér af samúð? Það þekkist alveg að fólk geri þetta. Sofi t.d. hjá ljótri manneskju af því hann vorkennir henni að fá aldrei að r….. Þetta finnst mér ömurlegt og vona að ég þurfi aldrei að lenda í þessu!”
Sigrún, 36 ára, segir ýmislegt um komplexana:
“Oft verður maður hálf skelkaður af því maður veit ekki alveg hversu langt maður vill ganga. Já, ég held að konur viti ekki alltaf hvort þær eigi að taka þátt í anal-sexi eða hvort þær eigi að gera hitt og þetta. Þær pæla ekkert alltaf í því hvað þær vilja heldur frekar hvað þeim beri að gera í rúminu. Svo held ég að sumar séu hræddar við að fara heim með einhverjum og vilja svo ekki gera neitt. Þá sleppa þær því frekar. Og ég held að komur óttist alveg eins að verða ekki nógu æstar eins og karlmenn óttast að þeim standi ekki… Konu langar ekkert að liggja alveg skraufþurr og meiða sig við samfarirnar. Það er ekkert gaman og alveg jafn vandræðalegt fyrir bæði. Hann getur líka upplifað það sem einskonar höfnun á sig og hún getur fengið áhyggjur af því sama. Sjálf er ég með allskonar komplexa. Ég óttast að þeir fari kannski í taugarnar á mér, séu skítugir, með óhreint á rúmum, stöðugt sjúgandi uppí nefið og svo framvegis. Þetta leiðir það af sér að ég er ekki mikið í skyndikynnum,” segir hún og skellir upp úr.
Kristín, móttökustjóri á fertugsaldri tekur undir með Sigrúnu að konur geti alveg eins verið hræddar við sinn eigin líkama og hans dyntóttu uppátæki:
“Ég fæ oft þrálátar sveppasýkingar sem eru alveg óþolandi. Þetta er ekki kynsjúkdómur en stafar af einhverju í meltingunni og kemur fram þarna. Stundum veit ég ekkert að þetta er komið. Hef lent í því að vera að sofa hjá strák og þegar hann dró hann út þá var hann allur í „kotasælu“. Þetta var alger viðbjóður. Maðurinn fékk þvílíkt sjokk og ég þurfti að fara að útskýra að þetta væri ekki kynsjúkdómur. Núna fer ég aldrei upp í rúm með nýjum manni án þess að vera búin að skoða mig í bak og fyrir inni á klósetti áður og stundum skola ég mig með vatni. Ég er líka pottþétt á því að þessi maður fer ekki eins glaðlega niður á konur eftir þetta atvik. Það var ekkert smá áfall sem hann fékk! Mér er illa við að menn fari niður á mig eftir þetta og ég leyfi það alls ekki nema vera í föstu sambandi eða þekki viðkomandi mjög vel. Ég vil ekki koma einhverjum sem ég þekki lítið en er kannski hrifin af í svona stöðu. Maður sér bara undir hælana á þeim…”
Siggi er rúmlega fertugur verkfræðingur sem eins og sumir, skuldar slatta af meðlögum:
“Minn ótti gengur aðallega út á að ég geri konuna ólétta. Mig langar EKKERT í fleiri börn og þar af leiðandi treysti ég ekki alltaf stelpum þegar þær segjast vera á pillunni. Hef nefninlega lent í því að vera notaður til undaneldis án þess að vilja það eða vita af því að það væri verið að nota mig. Núna er ég þannig að þó að daman segist vera á pillunni þá nota ég samt smokka og alltaf þá sterkustu sem til eru í apótekinu. Þetta er ekki alltaf vinsælt hjá konunum sem ég er með. Sumar þola illa gúmmíið og meiða sig. Sumar reyna að fá mig til að setja smokkinn ekki á mig og líta á það sem höfnun að ég vilji endilega nota smokk, eins og ég haldi að þær séu eitthvað skítugar eða með kynsjúkdóm. Málið er bara að mig langar ekki í fleiri börn og þegar ég segi þeim það, þá taka þær það líka sem höfnun og líta svo á að þær séu allavega ekki að fara í neitt alvöru samband með mér. Manni sem langar ekki í börn. Enn hef ég ekki hitt þá konu sem langar ekki í fleiri krakka og ef þær segjast hafa fengið nóg… ég veit það ekki, ég treysti þeim bara ekki. Auðvitað skemmir þetta helling fyrir í kynlífinu en ég veit ekki hvað ég get gert.”
Ónefndur smiður frá Akureyri, segir farir sínar ekki sléttar af sáðláti:
“Ég veit alls ekki hvað veldur þessu, en fyrir svona einu og hálfu ári þá byrjaði ég alltaf að fá það alltof snemma. Var kannski búinn að vera að í örfáar mínútur þegar það kom úr honum. Sú sem ég var með varð ferlega pirruð útí mig og kenndi mér um þetta. Sagði að ég væri sjálfselskur og reyndi ekkert að láta hana fá það, en það var alls ekki málið. Ég réði bara ekki við þetta. Á endanum varð hún svo svekkt að hún sagði mér upp. Hún sagði ekki að það væri þessu að kenna en ég veit það samt að þetta var málið. Ég skammast mín ótrúlega mikið fyrir þetta og veit ekki hvernig ég að snúa mér. Þegar ég er með stelpum núna þá stressast ég svo upp við tilhugsunina um að fá það of snemma að kynlífið fer allt í klessu og núna er ég bara búin að gefast upp. Hef ekki verið með kvenmanni í tæpt ár. Ég veit samt að get ekki forðast kynlíf og kvenfólk endalaust, verð eiginlega að fara að gera eitthvað af viti í þessu. Brjóta odd af oflæti mínu og koma mér til sálfræðings eða eitthvað…”
Ekki svo galinn hugmynd hjá norðanmanninum! Hann gróir saman ef hann gerir ekki eitthvað í þessu.
Nokkrar lausnir og góð ráð
Ef komplexarnir ætla ykkur óstöðug að æra, er um að gera fyrir ykkir að byrja að slappa af sem fyrst og reyna að skoða málið á hlutlausan hátt. Eruð þið til dæmis að taka einhver lyf? Mörg lyf geta haft áhrif á stinninguna eða vætuna, sem og mikil kaffidrykkja (eða koffíndrykkja) og áfengisneysla.
Svo hjálpar líka að skoða vel og vandlega eigin viðhorf til þess að „standa sig”. Þetta er enginn keppni og óþarfi að vera harður við sjálfan sig. Skammarræðan í kollinum gerir illt verra. Ef vandinn er samskonar og fyrsta viðmælandans er um að gera að prófa að slaka aðeins handvirkt á spennunni ef þú átt von á því að fara að stunda kynlíf. Það slakar á kynferðisspennunni. Svo þarf fólk að læra að slappa af og borða rétt og margt fleira. Það er um að gera að búa bara ekki til enn fleiri komplexa út frá þessum eina og taka á vandanum sem fyrst. Kynferðisvandi er eitthvað sem allir glíma við í einni eða annari mynd einhverntíma á lífsleiðinni og í raun er slíkt ekkert til að skammast sín fyrir.
Ef þú eða rekkjunautur þinn glímið við einhverskonar vanda á þessu sviði þá er fullt af sérfræðingum sem geta auðveldlega komið til bjargar.