Undanfarið höfum við skrifað svolítið um stjúpfjölskyldur og stjúptengsl hér á Pjattinu. Meðal annars sló viðtal við Valgerði Halldórsdóttur í gegn fyrir um tveimur mánuðum en í því sagði hún frá reynslu sinni af blandaðri fjölskyldu og þeim hindrunum og erfiðleikum sem komu upp.
Ætla má að um 36% hjónabanda endi með skilnaði eftir að meðaltali 13,3 ára hjónaband en sambúð varir mun skemur en hjónaband. Árið 2009 slitu 703 pör sambúð sinni og hafði sambúðin staðið skemur en þrjú ár hjá 51,5% (Hagstofa Íslands, e.d.-b).
Ætla má því að talsvert sé af börnum sem upplifa skilnað eða sambúðarslit foreldra sinna.
Rannsókn um reynslu og sýn skilnaðarungmenna sýnir að meira en helmingur þeirra sem skilja stofna til nýrrar sambúðar innan fjögurra ára, eða60.2% mæðra og 67,9% feðra.
Um fjórðungur svarenda sögðu foreldra sína hafa farið í tvær eða fleiri sambúðir eftir skilnað (Sigrún Júlíusdóttir, Jóhanna Rósa Arnardóttir og Guðlaug Magnúsdóttir, 2008). Þar sem stjúpfjölskyldur verða gjarnan til í kjölfar skilnaðar er vert að bera saman skilnaðartíðni og rannsókn Sigrúnar Júlíusdóttur og fleiri. Ef þetta tvennt er borið saman má sjá að mikill fjöldi stjúpfjölskyldna myndast ár hvert.
UNNIÐ ÚR MÁLUM
“Fólk fer auðvitað í ný sambönd og flestir eru lítið eða ekkert undibúnir undir stjúptengslin.Fólk verður svo ráðþrota. Þessvegna er svo gott að hafa almenna umræðu um þessi mál því þá uppgötvar fólk að það sem það er að upplifa er svo rosalega algengt og flestir eru að glíma við það sama,” segir Valgerður Halldórsdóttir í samtali við Pjattið og bætir því við að lífslíkurnar séu jafnvel minni í seinni samböndum. “Fólk er að fara með ákveðna bagga á milli sambanda, horfa í baksýnisspegilinn og gera upp málin, ert jafnvel enn í rifrildi við fyrrum maka sem er vitanlega mjög óaðlaðandi í augum nýja makans.”
NOKKUR HEILRÆÐI
• Hvernig við höldum upp á jól og aðrar hátíðir – er valkvætt.
• Leyfum okkur að prófa – höldum í það sem okkur líkar en sleppum örðu.
• Í stjúpfjölskyldum eru nokkur „við” sem er fullkomlega eðlilegt – sérstaklega í fyrstu.
• Kynnum okkur sögu hvers annars – það má gera með því t.d. að setja spurningar undir diska í jólaboðunum eða hafa myndaalbúmin aðgengileg. Við munum komast að mörgu óvæntu og skemmtilegu.
• Hefðir eru mikilvægur þáttur í að takast á við sorg og missi, geta verið græðandi og það sama á við um nýjar hefðir í nýjum aðstæðum. Höldum í þær hefðir sem hjálpa og sleppum öðrum.
Valgerður er menntuð stjórnmálafræðingur, kennari og félagsráðgjafi. Kennir í háskólanum kúrs um stjúptengsl og skilnaði en það er hennar sérgrein og námskeiðin hennar verða sífellt vinsælli.
“Maður hugsar bara hvað það væri gott ef allir gætu bara fengið þessa ráðgjöf sem gagnast svo mikil. Fólk fer á foreldranámskeið og lærir hvernig á að taka á móti litu barni í heiminn en þegar þú verður stjúpforeldri þá á allt að ganga rosalega vel af sjálfu sér, einmit þegar áskorunin er mikið meiri. Stjúptengslanámskeiðin eru á vegum Stjúptengsla með styrk frá Velferðarráðuneyti en Valgerður býður líka upp á skilnaðarnámskeið og námskeið fyrir feður sem eru giftir stjúpmæðrum.
“Skilnaðarhóparnir eru líka rosalega gagnlegir – Hugsa sér hvað mikið af fólki er í flækju og vanda bara út af fyrrum samböndum”, segir hún og bætir við að fyrir sér sé þetta hálfgerð trúboðavinna í leiðinni. “Þetta er mér mikið hjartans mál,” segir Valgerður að lokum.
Félag stjúpfjölskyldna er með símaráðgjöf á miðvikudögum, ókeypis – milli kl 16-18 alla miðvikudaga í síma 588-0850.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.