Ég átti í samtali á róló við aðra mömmu um daginn. Þetta var falleg og opin kona með eina að verða þriggja ára og annað lítið barn í vagni.
Við stóðum þarna í sólinni og horfðum á dætur okkar hlaupa um… þetta var svona smá tal í byrjun um dagmömmur, leikskóla og bara svona almennt mömmutal.
Hún sagði mér að hún væri í vandræðum með að finna dagmömmu, sem er eitthvað sem ég heyri næstum allar nýbakaðar mæður stressa sig yfir. Ég er ekki að lasta dagforeldra með þessum skrifum, alveg alls alls ekki… án þeirra værum við í miklu verri stöðu, – en það sem mér finnst alveg hið furðulegasta mál er það að við sem erum nýbúin að eignast börn og erum að aðlagast þeirri fallegu og krefjandi nýju veröld sem foreldrahlutverkið færir okkur að það sé líka pressa og álag að finna dagforeldri sem er með laust pláss í stað þess að geta einbeitt okkur að því sem skiptir máli. Nefnilega að njóta tímans í fæðingarorlofinu með barninu.
Eins og einhyrningur í Hallgrímskirkju
Það er nógu erfið hugsun að fara frá barninu til að byrja með og út á vinnumarkað aftur; hvað þá að leita að dagmömmu sem er með laust pláss, barninu líður vel hjá og er í þínu hverfi…Þetta virðist jafn líklegt og að finna einhyrning í Hallgrímskirkju.
Ég var reyndar mjög heppin, stelpan okkar komst inn á ungbarnaleikskóla og erum við hæstánægð með þann yndislega stað; Lund. Það eru bara svo margir foreldrar sem eru í stökustu vandræðum að brúa þetta bil, frá lokum fæðingarorlofs til byrjunnar leikskólavistarinnar sem er um tveggja ára aldurinn.
Ekki láta barneignirnar trufla vinnuna
Það er pressa á okkur að láta ekki barneignir skemma fyrir okkur í vinnunni. Oft virðist vera meiri pressa á okkur konunum að við látum þetta ekki hafa áhrif á mætingu og annað, (eins og pabbar séu aldrei heima með veik börn?) Að treysta því að ein manneskja sem er dagforeldri, og á kannski sjálf börn, geti verið 100% viss um að hjálpa að brúa þetta bil er algjör bilun. Það er ljóst.
Afhverju er ekki fæðingarorlofið lengra eða meira fjármagn veitt í mikilvægustu stofnanir landsins LEIKSKÓLANA?
Á leikskólunum standa fagaðilar vörðinn og hjálpa okkar dýrmætustu þegnum að taka sín fyrstu þroskaskref utan nánustu fjölskyldu.
Það er oft talað um leikskólastarfið sem bara eitthvað sem allir gætu gert það er ekki svo. Fyrstu þrjú ár í lífi barns eru talin þau mikilvægustu og öll þessi börn erfa landið og okkur gamlingjana. Það er kannski ekki skrýtið að elliheimilin séu svona fjársvelt því hvernig á kynslóð sem er alin upp á fjársveltum stofnunum að kunna að hlúa að þeim sem eldri eru þegar að því kemur…?
Leikskólakennarar ættu að fá mikið hærri laun og leikskólarnir meira fjármagn
Leikskólakennarar eru fólkið sem kennir okkar börnum margt það mikilvægasta í lífinu, já í alvöru!
Þau leiða börnin okkar inn í daginn, skapa öryggi, rútínu, kenna þeim að eiga samskipti við önnur börn, knúsa elskurnar okkar ef þau meiða sig, kyssa á bágtið og passa upp á að öll börnin séu góð hvort við annað.
Þau læra að deila með öðrum, láta sér linda við önnur börn, að segja fyrirgefðu, læra mannasiði, borðsiði allt sem við foreldrarnir erum að kenna þeim halda þau við og svo miklu meira til.
Erum við að standa okkur?
Ég elska þetta land og geri mér grein fyrir hversu heppin við erum með svo margt hér en við ættum að geta gert svo miklu betur á þessu sviði. Ef við hlúum betur að börnunum verður framtíðin bjartari – ekki satt?
Hvenær ætli leikskólakennarar fái borguð mannsæmandi laun? Myndi það gerast ef þjóðargersemar yrðu grafnar undir sandkassanum? Ef leikskólar og bankar færu í samruna? Ef hólf leikskólabarna yrðu gerð að leynilegum öryggishólfum fyrir þau allra ríkustu… Eða bara ef þau sem stjórna velferðarmálum okkar myndu ranka aðeins við sér og skoða forgangsröðina betur?
Fokk Tortóla, Ægisborg er málið!
Þórunn Antonía Magnúsdóttir, söng og leikkona, er flestum landsmönnum kunn. Hún hefur áhuga á ótal mörgu, en þó aðallega tónlist, móðurhlutverkinu, kvenhlutverkinu, ástinni, listinni og lífinu. Hún er í farsælli sambúð og á eina dóttur.