Maður furðar sig oft á því hvernig skutlurnar i tískuheiminum fara að því að halda líkamanum flottum þrátt fyrir barnseignir, gott dæmi er Heidi Klum sem á von á sínu fjórða barni og Natalia Vodianova sem er 3 barna móðir.
Hér koma nokkur ráð sem geta hjálpað okkur að halda líkamanum flottum þrátt fyrir barnseignir:
1. Á meðgöngu er ekki síður mikilvægt en áður að borða hollan mat, auðvelt er að detta í sætindi og feitan mat en það er hvorki gott fyrir þig né barnið, reyndu að borða mikið grænmeti, ávexti og fisk og muna að þú ert ekki að borða fyrir tvo, þú þarft ekki tvöfaldan skammt af öllu. Og ekki má gleyma vítamínunum;)
2. Hreyfðu þig, það er svo margt i boði fyrir verðandi mæður, meðgönguleikfimi, vatnsleikfimi og jóga svo dæmi séu nefnd og þó maður sé ekki að fara út að skokka á steypinum þá er alltaf gott að fara í göngutúra og sund. Ef maður heldur sér í góðu formi þá er maður líka betur undirbúinn undir fæðinguna og fljótari að jafna sig.
3. Vertu dugleg að bera á þig olíu eða rakagefandi krem, sérstaklega á brjóstin og magann þar sem maður er gjarn að fá slit, það eykur teygjanleika húðarinnar og fyrirbyggir slit. Ég mæli með hreinni kókosolíu eða Body butter frá Body shop, ég nota Coconut og Shea Butter sem bæði eru mjög rakagefandi.
4. Brjóstagjöf, þegar þú ert með barn á brjósti þá stækka brjóstin óneitanlega töluvert og verða þyngri, ráð sem ég fékk var að vera alltaf í stuðningsgóðum brjóstahaldara og sofa líka með stuðning fyrir brjóstin t.d. í íþróttabrjóstahaldara eða e-m þægilegum bómullartopp sem gefur stuðning því annars tekur þyngdaraflið við og brjóstin fara að síga undan þunganum. Einnig er mjög mikilvægt að hafa barnið í sömu hæð og geirvörturnar þegar þú gefur svo það sé ekki að toga brjóstin niður, þá kemur brjóstagjafapúðinn að góðum notum.
5. Þegar barnið er komið heim og það er erfitt að komast frá og fara í ræktina þá getur maður farið rösklega út að ganga með vagninn eða gert leikfimi heima á meðan barnið blundar og þá er sniðugt að kaupa sér dvd með góðum æfingum eins og pilates og jóga.
Ég vona að þessi ráð komi einhverjum að góðum notum og það væri rosa gaman ef þið gæfuð okkur ykkar ráð líka;)
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.