Þessa merkilegu grein skrifaði Lilja Sif Þorsteinsdóttir sálfræðingur hjá Heilshugar en stofan leggur áherslu á skaðaminnkandi aðferðir til bata.
Flökkutaugin
Flökkutaugin (vagus taug) er risastórt líffæri sem liðast um allan búkinn á þér og gefur heilanum upplýsingar um líkamsástand þitt.
Flökkutaugin sendir upplýsingar um hversu hratt hjartað þitt slær, hversu grunnt eða djúpt þú andar, hvernig ástandið er í meltingarfærunum o.s.frv. og heilinn notar svo þessar upplýsingar til þess að giska á hvort ástandið fyrir utan er öruggt eða ekki. Heilinn þinn er nefnilega blindur og heyrnarlaus, og þarf að reiða sig á taugaboð frá skynfærum og flökkutaug til þess að ákveða hvort hætta sé á ferðum eða ekki.
Flökkutaugin talar heilmikið við heilann
80-90% af brautum flökkutaugarinnar liggja til heilans, og aðeins 10-20% af brautunum liggja frá heilanum – sem þýðir að flökkutaugin talar heilmikið við heilann, en heilinn talar mjög lítið við flökkutaugina á móti. Það sem þetta þýðir er að flökkutaugin ræður þínu tilfinningalega ástandi (og af hverju við rökræðum ekki við tilfinningar okkar).
Getum nýtt okkur vitneskjuna
Ef líkamsástandið þitt er rólegt, er heilinn rólegur. Ef hjartað slær hratt, eða þú andar grunnt, tekur heilinn eftir því, og – með hjálp ytri skynfæra og fyrri reynslu – býr til sögu um hvað er að gerast. Það er ekki fyrr en á seinni stigum þessa ferlis, sem æðri heilasvæðin okkar – þau heilasvæði sem skilja talað mál – fá aðgang að þessum upplýsingum.
Löngu eftir að líkaminn er búinn að ákveða hvort umhverfið er öruggt eða ekki. Þessa vitneskju getum við nýtt okkur þegar við erum að glíma við geðkvilla líkt og kvíða og/eða þunglyndi.
Getum ráðið við eigið varnarkerfi
Við getum ráðið heilmikið við eigin varnarkerfi með því að æfa upp líkamann okkar. Hreyfing og öndun eru miklu öflugra kvíða- og þunglyndislyf heldur en fólk almennt áttar sig á – jafnvel þó við heyrum þetta reglulega – og þetta er ástæðan!
Við erum að æfa upp streituviðbragðið okkar meðvitað, í aðstæðum sem heilinn veit að eru ekki hættulegar, svo heilinn verður sjóaðri í að upplifa streitu, ásamt því að með því að nota hluti eins og öndunaræfingar, kælingu og hreyfingu styrkjum við öll kerfi smám saman og innra ástand verður rólegra.
Sólin í augnbotnana
Þrátt fyrir að öll hreyfing sé frábær, hefur ganga sérstaka kosti. Ganga hefur þann kost fram yfir aðra hreyfingu að hún er taktföst og setur áreiti á sitt hvorn helming líkamans sitt á hvað – sem er sama og við gerum þegar við notum EMDR til að hjálpa fólki að vinna niður áföll.
Það að ganga getur því í alvöru hjálpað fólki að hreinsa hugann – eins og mörg sem ganga og hlaupa geta vitnað til um – ásamt því að styrkja líkamlegt ástand. Þar að auki færðu sólarljós í augnbotnana, sem hefur bein áhrif á taugaboðefna- og hormónastarfsemi, og færð smá skammt af náttúruöflunum í leiðinni. Allt þetta er gífurlega hollt fyrir líkamlegt ástand.
Ert þú búin að fara í göngutúr nýlega?
Lestu hér hvað regluleg sánaböð að hætti Finna geta gert fyrir heilsuna
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.