Menningarhátíð Seltjarnarness fer dagana 10. – 13. október en að þessu sinni er hátíðin sniðin að fjölskyldunni og viðburðir með þeim hætti að börn og fullorðnir geta sameinast í upplifuninni.
Sérstök athygli er vakin á viðburði í safnhúsinu, (fyrirhugað lækningaminjasafn) að kvöldi opnunardagsins, fimmtudagsins, kl. 20-21 en þar leiða saman hesta sína Sigtryggur Baldursson (Bogomil Font) og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness, en einnig koma fram kunnir tónlistarmenn eins og Ari Bragi Kárason.
Gestir hátíðarinnar geta byrjað daginn snemma á laugardagsmorgun (kl. 9:30-10:30) en þá býður Björnsbakarí bæjarbúum í ókeypis morgunverðarhlaðborð þar sem óvæntur hamingjugjörningur verður framinn kl. 11 með þátttöku allra barna sem vettlingi geta valdið. Síðar um morguninn er þrívíð bókasmiðja í Bókasafninu fyrir 6-11 ára gömul börn.
Á Bókasafni Seltjarnarness er sýning um Guðrúnu Helgadóttur þar sem m.a. er búið að koma fyrir brúðunni Palla, sem margir muna eftir úr Stundinni okkar auk ýmissa muna sem tengjast rithöfundaferli Guðrúnar. T.d. gamla ritvélin hennar, gömul prógrömm, úrklippur og fleira og fleira. Í bókasafninu gefst börnum einnig gefinn kostur á að taka þátt í getraun og geta unnið vegleg verðlaun frá Forlaginu.
Öll börn sem koma klædd eins og gamalmenni fá ókeypis rjómatertusneið í anda Jóns Odds og Jóns Bjarna á hátíðardagskrá kl. 14 á laugardeginum í Félagsheimilinu, en hátíðin er haldin til heiðurs Guðrúnu Helgadóttur í tilefni af 40 ára rithöfundaafmæli hennar. Þar verður auk annars sýnt atriði úr leikritinu Óvitum sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á sunnudaginn. Aðgangur er ókeypis.
Á sunnudaginn er sannkölluð fjölskyldudagskrá í Félagsheimilinu frá kl. 16-17:30 þar sem fram kemur 60 manna kór ásamt söngvaranum Valdimar, Ari Eldjárn og hljómsveitirnar Útidúr og Fimm frá Nesi svo eitthvað sé nefnt.
Dagskráin er ókeypis og börn og foreldrar velkominn!
Alla dagskrána má nálgast á heimasíðu bæjarins www.seltjarnarnes.is
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.