Sumarkomunni á Seltjarnarnesi er fagnað með viðburðaríkum Fjölskyldudegi í Gróttu, fimmtudaginn 1. maí frá kl. 13-15.
Hátíðin höfðar til allra aldurshópa og fer fram víða um eyjuna, en mikil uppbygging hefur átt sér stað þar undanfarin ár. Í Albertsbúð, sem stendur syðst á eyjunni, leikur og syngur trúbadorinn KK frá kl. 13:15-13:45.
Hönnunarteymið Volki, þær Olga Hrafnsdóttir og Elísabet Jónsdóttir sækja innblástur í hönnun sína í Gróttuvita og aðra vita landsins. Í vitavarðarhúsinu, sem stendur við fræðasetrið, sýna þær afrakstur sinn sem eru úti- og innihúsgögn auk ljósa sem unnin ertu út frá formi og hlutverki vitans, en línan var fyrst sýnd á Hönnunarmars 2014.
Harmonikkuleikur, vöfflur, stækkunargler, andlitsmálun og fleira fjör
Ljúfir harmonikkutónar Bjarka Harðarsonar munu óma um eyjuna og undir borðum í fræðasetrinu þar sem hægt verður að kaupa vöfflukaffi á vægu verði.
Í fræðasetrinu hefur nú verið endurnýjuð og gerð upp rannsóknaraðstaða þar sem börn geta rannsakað og skoðað í víðsjám og með stækkunarglerjum hinar fjölbreyttu sjáfarlífverur sem finna má í Gróttufjöru og tilvalið er að safna sjálfur.
Til að aðstoða börnin við greininguna verða líffræðinemar á staðnum. Á efri hæð fræðasetursins verður boðið upp á andlitsmálun en í aðalsalnum verða sýnd að nýju, vegna fjölda áskorana, hinar einstöku tölvugerðu myndir Elsu Nielsen af þekktum kennileitum á Nesinu en þær voru síðast sýndar á Hönnunarmars í Eiðisskeri.
Opið upp í vitann, og svo er það trefillinn langi
Eins og vera ber leikur Gróttuviti stórt hlutverk í fjölskyldudeginum en í rúma tvo mánuði hefur starfsfólk bæjarins og félagar í hannyrðaklúbbi eldri borgara tekið höndum saman og prjónað æði skrautlegan trefil utan um vitann. Með treflinum vilja bæjarbúar votta vitanum, einu megintákni bæjarins, hlýhug sinn og umvefja hann vinartrefli. Einnig verður opið upp í vita og hægt að ganga efst upp í hann og líta hið stórbrotna útsýni augum.
Flugdrekasmíði eftir tónleika með KK
Alla dreymir um að sjá flugdrekann sinn leika listir í loftunum en í smiðju, sem Ásdís Kalman myndmenntakennari mun stýra, verður unnt að láta þann draum rætast. Eru börn og fullorðnir hvattir til að vinna saman að smíðinni, sem fram fer í Albertsbúð að loknum tónleikum KK.
Síðastliðinn 35 ár hefur Rótarýklúbbur Seltjarnarness unið afar óeigingjarnt starf í samstarfi við bæjaryfirvöld um að viðhalda og gera upp mannvirki sem staðið hafa í eyjunni. Síðasta stórvirki klúbbsins er enduruppbygging gömlu bryggjunnar sem liggur að Albertsbúð. Bryggjan hefur verið reist sem næst upprunalegu útliti og er nú nánast fullgerð. Af því tilefni munu Gróttunefndarmenn Rótarýklúbbsins vera á staðnum og segja frá uppbyggingu klúbbsins og veru hans í Gróttu síðastliðin 35 ár. Einnig munu þeir fræða gesti og gangandi um vitana tvo, vitaverðina og miðla af annarri þekkingu sem þeir búa yfir um eyjuna.
ALLT ÓKEYPIS
Rík hefð er fyrir Fjölskyldudeginum í Gróttu en í tilefni af fertugasta afmælisári bæjarins verður hún veglegri nú en áður. Allir viðburðir eru ókeypis.
Skipulögð dagskrá stendur frá kl. 13-15 en opið er út í eyjuna frá kl. 11:30 -16 og mun Björgunarsveitin Ársæll sjá um að ferja fólk sem ekki á auðvelt með að komast fótgangandi út í Gróttu.
Klukkan 12:30 verður boðið upp á stutta helgistund í Albertsbúð.
Nú er síðasta tækifærið til að fara út í Gróttu áður en lokað verður fyrir umferð vegna fuglavarps, en frá og með hátíðarlokum og til 15. júlí verður henni lokað fyrir allri umferð.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.