Á mánudaginn leggjast fyrirtæki landsins að hluta til í dvala. Á stór-Reykjavíkursvæðinu eru flestir leikskólar komnir í frí, grunnskólarnir lokaðir og þar af leiðandi eru foreldrar flest allir á leiðinni í fríið með börnunum sínum.
Ertu í vandræðum með hvað gera skuli í fríinu? Langar þig til útlanda en buddan leyfir það ekki? Finnst þér vera orðið of dýrt að ferðast innanlands?
Hvernig væri að kynnast sínum heimabæ í sumar í stað þess að þeytast um allt land, ég tala ekki um að öfundast út í fólk sem flýgur til framandi landa?
Við turtildúfurnar gerðum þetta í fyrra, hjóluðum um alla borg, fórum á söfn, upp í Hallgrímskirkjuturn, nýttum okkur tilboð á veitingarstöðum í hádeginu (2 fyrir 1 með Einkakortinu), fórum út í Viðey, á Ilströndina, leigðum okkur vespu, fórum í sjóstangaveiði og nutum samverunnar í stað þess að eltast við afþreyingu og það besta við þetta allt saman var að við fengum góða hvíld í okkar eigin rúmi *ahhhh*.
Okkur fannst þetta svo innihaldsríkt og skemmtilegt í fyrra að við ætlum að endurtaka leikinn í sumar. Ég hélt utan um allan kostnað sem tengdist því sem við gerðum og eins og þið sjáið þá þarf ekki að vera dýrt að ferðast um í eigin borg, svona miðað við að eltast til útlanda, eða keyra um allt land en við fórum allar okkar ferðir síðasta sumar á hjóli með drenginn í afturdragi.
5 vikna sumarfrí hljómaði svona í fyrra
Afþreying fyrir einn fullorðinn
Fuglasafnið 1,000
Sjóminjasafnið 1,000
Stjóstangaveiði 5,250
Árbæjarsafn 1,000
Grótta 0
Viðey 1,000
Vespuleiga 7,500
Hallgrímskirkjuturn 0
Ylströndin 0
Ylströndin 0
871 +/- 2 1,000
Samtals 17,750
Veitingastaðir fyrir einn fullorðinn
Fuglasafnið kaffi 750
Sjóminjasafnið kaffi 1,000
Oliver 1,200
Cafe París 3,500
Pisa 1,250
Kringlukráin 1,150
Kringlukráin 3,250
Árbæjarsafn kaffi 1,000
Hamborgarafabrikkan 2,000
Rauðahúsið 6,500
Uno 2,200
Samtals 23,800
Heildarútgjöldin hljóma sem sagt upp á Alls 41,550 kr
Ég man að ég upplifi sumarið þannig að ég hafi verið alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og endalaust út að borða og verð ég að segja að þessi upphæð kom mér töluvert á óvart þar sem ég bjóst við að sumarið yrði margfalt dýrara þegar við lögðum af stað með þetta plan.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.