Þú kannast kannski við það að vera föst í umferðinni, eða eyða löngum tíma á hverjum degi að keyra á milli rauðra ljósa ?
Unglingurinn kenndi okkur gamlingjunum á heimilinu leik sem hún og vinir hennar hafa verið að leika, en hann gengur út á það að finna bílnúmer frá tölunni 000 og upp úr. Sem sagt, hver og einn einstaklingur fylgist vel með umhverfinu sínu og leitar eftir bílnúmerum og tilkynnir svo fjölskyldumeðlimum hvert hann er kominn þegar númerið finnst. Kallinn er til dæmis kominn upp í 018, unglingurinn er komin upp í 013 og ég *ehrm* er komin upp í 001.
Mikil fagnaðarlæti brjótast út í bílnum þegar maður finnur bílnúmer (og blót í öðrum), en þetta er ótrúlega skemmtilegur leikur og getur stytt stundirnar á rauðum ljósum, þegar verið er að leita að bílastæðum, eða bara þegar þú ert í göngutúr.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.