Það getur verið flókið að púsla saman heimilislífinu. Þú hefur þín áhugamál, kallinn hefur önnur, unglingarnir það þriðja og oft þegar upp er staðið eyðir þið frítíma ykkar í sitthvoru lagi í staðinn fyrir að gera eitthvað saman.
Ég og kallinn minn höfum sameiginleg áhugamál og svo ólík áhugamál. Sumt af því sem honum finnst gaman að gera get ég með engu móti skilið og svo á móti þá hefur hann líka takmarkaðan áhuga á mörgu sem ég geri, svona eins og að prjóna og sauma. Það sem ég hef verið að uppgötva undanfarið er að unglingurinn á heimilinu hefur allskonar áhugamál sem ég hef ekki áhuga á og stend ég mig oft að því að streitast á móti því að hún sé svolítið ólík mér hvað varðar áhugasvið.
Mér datt í hug áðan hvað gæti verið gaman og áhugavert að kynnast áhugamálum fólksins á heimilinu í staðinn fyrir að gagnrýna það svolítið út í horni og ekki skilja alveg um hvað það snýst. Kannski er bara gaman að ganga á fjöll og skoða steinana í leiðinni eða skjóta í mark úr loftbyssu. Það gæti jafnvel verið sérstaklega gaman þegar maður er að gera það með fjölskyldunni.
Litla fjölskyldan mín ætlar að setjast niður og skrifa á blað 5 atriði sem okkur þykir gaman að gera. Í sameiningu veljum við tvö atriði hjá hverju og einu og á næstu sex mánuðum (einu sinni í mánuði) ætlum við að kynnast áhugamálum hvors annars.
Það getur vel verið að margt af því sem við munum gera finnist okkur ekki skemmtilegt eða við höfum enn engan sérstakan áhuga á, en ég er alveg viss um að margt á eftir að koma á óvart og augu okkar opnast fyrir áhugamálum hvors annars og í kjölfarið sjá fjölskyldumeðlimina gleðjast yfir því að allir eru að taka þátt í lífi hvors annars.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.