Myndband um heimildamynd sem fjallar um hlutverk kvenna í fjölmiðlum hefur gengið sem eldur um sinu um netið.
Þó svo að íslenskar konur eru mun betur settar en þær bandarísku þá verð ég að viðurkenna að mér hefur lengi blöskrað sú mynd sem birt er af konum í kvikmyndum, tónlistarmyndböndum og tölvuleikjum..
Tökum börnin okkar og efni sem ætlað er þeim sem dæmi: Sem móðir reyni ég eins og ég get að halda óheilbrigðum fyrirmyndum frá börnunum mínum en það er vægast sagt erfitt. Ég er ekki hrifin af því að þau horfi á tónlistarstöðvar, því þær sýna léttklæddar konur í kynferðislegum dansi í öðru hverju myndbandi. Ég hef bannað marga tölvuleiki, vissuð þið t.d. að ungir strákar eru að spila Grand Theft Auto þar sem sögupersónan fær stig fyrir að lemja konur, getur heimsótt strippstaði og tekur fíkniefni?
EKKI FYRIR 11 ÁRA STRÁK
Bíómyndirnar sem eru vinsælar hjá ungum strákum eru t.d. Hangover, Fast & Furious og álíka rusl. Mér blöskraði um daginn þegar sonur minn var veikur að hann bað mig að taka fyrir sig mynd sem heitir „Hot tub time machine“, sjáið coverið á henni hér að neðan – það var nóg að sjá það til að vita að það kæmi ekki til greina að leigja hana fyrir 11 ára strák.
Það er merkilegt að nánast allt þetta efni kemur frá Bandaríkjunum og ekki er nokkur leið að halda því alveg frá barni sínu nema flytja út í sveit og vera sjónvarps og tölvulaus. En það er ýmislegt sem við foreldrar getum gert, sett netvara á tölvurnar, fylgst með hvaða tölvuleiki börnin eru í og hvaða myndir þau sjá.
VÆLANDI DRAMADROTTNINGAR
Þættir sem eru gerðir fyrir ungar stelpur fjalla oftast mest um hvernig þær næla sér í kærasta og allskonar vellukennt persónudrama sem á engan hátt styrkir vitund þeirra og sjálfstraust heldur kennir þeim frekar að verða ósjálfstæðar vælandi dramadrottningar. Meira segja þátturinn “Make it or break it” um fimleikastelpurnar sem sýndu er á RÚV fjallar mest um hvernig stelpurnar leggja hvor aðra í einelti og stela kærustum hvor annarrar en ekki hversu mikið þær leggja a sig og eru duglegar . 90210 er svo sérstaklega skelfilegt, ef leikkonurnar þar eru ekki allar með átröskun þá veit ég ekki hvað er í gangi..
Ég er ekki mikið fyrir að banna allt en það hlýtur að vera einhver leið til að minnka þetta rusl sem er hent í börnin okkar daginn út og inn? Hvernig eigum við að vera fyrirmynd fyrir börnin okkar og kenna þeim góð gildi ef allt fjölmiðlasamfélagið stendur í niðurrifi?
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.