Í janúar fór ég til USA með systur minni og að sjálfsögðu var verslað, farið út að borða, þotist um í leigubílum og þjórfé gefið á veitingastöðum.
Þar sem ég er frekar skipulögð í fjármálum var ég búin að gera fjárhagsplan áður en ég fór út og var ég fyrirfram búin að ákveða að ég mætti ekki eyða meira en X upphæð í sjálfa mig, leigurbíla, matsölustaðina og fram eftir götunum til að vera með stjórn á buddunni meðan ég var úti.
Það sem gerðist oft þegar ég fór til útlanda hérna í denn, sérstaklega USA, var að ég missti mig algjörlega í eyðslunni og oft komu augnablik þar sem ég missti allt yfirsýn yfir eyðsluna og kæruleysið tók völdin ásamt áhyggjum yfir VISA reikningnum.
En nú eru þessir dagar liðnir vegna tilkomu snjallsíma og ef þú kannst við þetta þá getur þér (og mér) liðið vel allan tímann sem við erum úti þar sem við erum algjörlega með púlsinn á eyðslunni.
Snjallsímar bjóða upp á fjöldan allan af forritum þar sem þú getur hafið yfirsýn yfir eyðsluna og skipulagt hana. Það eina sem þú þarft að gera er að skrifa samviskusamlega eyðsluna inn í skemmtileg forrit og með því að gera það veistu nákvæmlega hvað VISA reikningurinn verður hár þegar þú kemur heim.
Dæmi um forrit sem hægt er að sækja á Android markaðnum er Money Lover en í því forriti getur þú skráð inn eyðsluna, sett inn eyðsluplan, séð tölfræði, búið til þína eigin flokka og að sjálfsögðu séð hversu mikið þú hefur eytt. Mörg af þessum forritum eru einnig með þjórfé reikni og er meira segja hægt að deila reikningunum niður í x fjölda þannig að það er ekkert mál að deila honum þegar þú ferð út að borða.
Prófaðu að leita á markaðnum, eða í AppStore, að Budget planner og þú færð upp fullt af valmöguleikum.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.