Ég hef ákveðið að birta ljóð hér á Pjatt.is, bæði mín eigin og annara, af því ljóð eru góð og ljóð þurfa meiri athygli meðal okkar allra. Eftirfarandi ljóð er innblásið af málverki eftir Þránd Þórarinsson.
FJALLKONURNAR
Myrkrið liggur yfir landinu eins og flauelsteppi
áferðin silfruð af stjörnum og hálfmána, skartgripir næturinnar, sindrandi hvítagull
Á kletti situr kona og slíðrar blóðugt sverð
þerrar hendurnar á fannhvítri svuntu
meðan bergskriður heyrast í fjarska
drunur djúpar og dimmar
Hún andar út í myrkrið
og burt svífur agnarsmátt ský
sem stefnir á borgina
Þar springa ljóð hennar út
og feta sig eftir gatnakerfi kristalla
á köldum rúðum
svífa inn um svefnherbergisglugga
og krafsa í drauma
með sérstöku braki
líkt og klakabönd séu að bresta
undan sofandi vitund mannsins
sem hjúfrar sig að sjálfum sér
í hrynjandi martröðum
einhversstaðar í Grafarlandi
drunur djúpar og dimmar
—
Sex mánuðum síðar, á sautjánda júní, stendur litla systir hennar stolt
milli snyrtilegra stjúpuraða
eins og innrömmuð af blómum
á iðjagrænum velli
með afar stóran míkrófón
Sólin glampar á aflituðu hárinu
slær bjarma á víravirkið
og bláu augun hennar
blika djúp og skær
hún horfir yfir hópinn
hallar höfðinu aftur
lokar augunum
heyrir óminn frá lúðrasveit
sér iðandi bleika ljósdepla
og finnur léttan vind strjúka um vanga
um leið og þota fer hjá
drunur djúpar og dimmar
Hún kyngir köldu munnvatni og það bíða allir en…
viti menn
hún mun ekki segja orð
fyrr en í fyrsta lagi
á sólstöðum
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.