Stundum velti ég því fyrir mér hvernig sé að vera hallærislegur karlmaður sem engin kona lítur við af því að hann er ekki nógu flottur.
Hlýtur að vera ömurlegt að vera dæmdur fyrir ytra útlit sitt, komast ekki á séns þrátt fyrir að vera etv. hinn besti náungi? Eru svona menn ekki öskureiðir innst inni?
Kunningi minn var einu sinni í meiriháttar yfirvigt; hreinræktuð fitubolla sem elskaði að hakka í sig nammi í tíma og ótíma. Hann komst ekki á sjéns með flottum konum. Einn daginn tók hann sig á og missti helminginn af sér í gífurlegu átaki, dressaði sig upp í Bossbúðinni og gjörbreytti stíl sínum og fasi öllu. Um leið fóru skvísurnar að taka meira eftir honum og hann óð upp að eyrum í sénsum. Eftir áralangt svekkelsi í samskiptum við fallegar konur var eins og lítill fugl hefði flögrað inn í höfuð hans og hvíslaði nú að honum æstur að þar sem hann hefði þurft að neita sér um konur svo lengi, þyrfti hann að hlaupa af sér hornin og prófa þær sem flestar.
Sem leiðir rökum að því að á meðan gaurinn var feitabolla hafi lítill grannvaxinn maður spriklað innra með honum, bálreiður að komast ekki á séns og hvað þá upp í rúm með dömu! Reiðin brýst svo út í nokkuð sérstakri brókasótt sem er einskonar hefnd gegn konum. Allar eru elskaðar jafnt í ákveðið langan tíma en fá svo að fjúka eins og gamlar lufsur.
Til gamans er hér mynd af George Clooney sem passar ágætlega við lýsinguna á litla ljóta andarunganum. Lummó gaur þegar hann var yngri en hefur heldur betur blómstrað í seinni tíð. Um leið er hann algerlega ófær um að díla við konur… og skiptir um eins og nærbuxur kannski eftir áralangt svekkelsi?
Guðrún Gunnarsdóttir er menntuð í viðskiptafræði en hefur lengst af starfað í tískubransanum. Nú rekur hún heildsölu ásamt eiginmanni sínum. Hún er sérlegur unnandi Parísarborgar en þangað fer hún nokkrum sinnum á hverju ári. Guðrún er hrútur, fædd 1976.