Ég var fengin til að skrifa grein í Læknanemann, tímarit læknanema. Greinin er útlistun á einkennum lækna eftir því hvaða stjörnumerki þeir tilheyra.
Ég er nú þegar búin að birta vatnsberann. Hin merkin eru svo væntanleg á næstu dögum.
Fiskurinn 19. febrúar – 20. mars
Ef að það var vatnsberi sem stofnaði Lækna án landamæra þá var það fiskur sem var fyrstur lækna til að bjóða fram vinnu sína fyrir hjálparsamtökin. Fiskar eru fórnfúsir og það er eins og þeir hafi einhverja sýn eða skilning á tilgangi lífsins sem aðrir eru ekki færir um að sjá. Peningar, veraldleg gæði eða völd vekja t.d. ekki mikinn áhuga og eru bara ekki forgangsatriði hjá fiskum. Þeir stíla frekar inn á tilfinningaleg og andleg mál.
Þar sem fiskurinn er tólfta og síðasta merki dýrahringsins er sagt að hann búi yfir einhverjum eiginleikum allra merkjanna. Þess vegna hefur hann mikla samkennd með öðrum lifandi verum og er fjölhæfur og fljótur að laga sig að aðstæðum. Læknar í fiskamerkinu eru því líklegir til að geta sinnt hvaða læknastöðu sem er.
Næmni fisksins og samkennd er á þann veg að ef einhver í kringum fiskinn þjáist er fiskurinn líklegur til að þjást með honum. Því þurfa læknar í fiskamerkinu að passa sig á að tengjast sjúklingum sínum ekki um of tilfinningalega svo að þeir brenni ekki út. Þá eru þeir líklegir til að vilja nota óhefðbundnar læknisaðferðir, blanda við aðferðir sínar sálfræði eða t.d. tónlistarþerapíu.
Frægir fiskar: Steve Jobs, Albert Einstein og Rihanna.
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.