Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.
Ókei, ókei ég veit, það vita allir hvaða mynd þetta er svo hún fellur ekki alveg inn í “fimmtudagsmyndarammann” með það að hafa fallið í gleymsku með árunum.
En áður en allt verður brjálað út af því að ég er að brjóta reglurnar þá langar mig að spyrja að þessu: Hvað er langt síðan þú sást “What’s Love Got to Do with It? Af því ég skal veðja hattinum mínum að það eru allavega 10 ár síðan flestir hafa séð þessa mynd!
Fyrir þá fáu sem vita ekkert hvaðan á sig stendur veðrið og hafa aldrei heyrt minnst á þessa mynd (og hafa þá greinilega ekki séð Clueless heldur…) þá er What’s Love Got to Do with It? (1993) byggð á sjálfsævisögu Tinu Turner sem fjallaði aðallega um samband hennar við Ike Turner sem beitti hana líkamlegu og andlegu ofbeldi á meðan á 16 ára sambandi þeirra stóð.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá What’s Love Got to Do with It?
1. Angela Bassett
Angela vann Golden Globe verðlaun og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt sem Tina Turner (Holly Hunter vann Óskarinn þetta ár fyrir hlutverk sitt í The Piano). Það er eiginlega algjör furða að Angela hafi ekki orðið stærri stjarna en hún er og því miður finn ég enga ástæðu fyrir því að hún hafi ekki orðið stórstjarna aðra en húðlitinn hennar.
Hún sýnir frábæra frammistöðu í þessarri mynd og hún bókstaflega verður Tina (okei ekki bókstaflega en þið skiljið mig er það ekki?)! Takið líka eftir því hvað hún er í frábærlega góðu formi, hef sjaldan verið eins öfundsjúk út í formið á nokkurri manneskju! Næst á dagskrá er að finna líkamsræktarplanið hennar Angelu Bassett á þessum árum.
2. Tónlistin
Þó að myndin sé um hræðilega lífsreynslu Tinu þá er ekki hægt að neyta því að þetta tímabil leiddi af sér nokkra frábæra hittara. Til dæmis þetta tökulag sem Tina krafðist þess að þau myndu byrja að taka á tónleikum og við vitum auðvitað öll hvaða lag þetta er í dag. Það er líklega oftar tengt Tinu en Creedence Clearwater.
3. Allt hitt!
Ég er ekki að segja að þessi mynd sé fullkomin en hún hefur bara svo mikil áhrif á mann. Ég hafði séð hana einu sinni áður í lífinu áður en ég horfði á hana aftur í gærkvöldi, samt hugsa ég um hana í hvert skipti sem ég heyri minnst á Tinu, í hvert skipti sem ég heyri minnst á heimilisofbeldi og oftar en ekki þegar ég heyri minnst á kynbundið ofbeldi, femínisma, jafnrétti kynjanna og svo margt margt fleira.
Þó það séu rúm 20 ár síðan ég sá þessa mynd í fyrsta og eina skiptið þá mundi ég eftir hverju einasta atriði í myndinni, ég vissi alltaf hvað var að fara að gerast næst og ég var byrjuð að grenja á undan mörgum atriðum sem eru átakanleg. Þetta er bara mynd sem allir verða að sjá.
Ég vil samt ítreka það að myndin er byggð á sjálfsævisögu Tinu og þess vegna er ekki allt rétt sem kemur fram í myndinni þó enginn hafi neitað ofbeldisatriðunum nema Ike sem hefur neitað tveimur atvikum í myndinni.
Hann hefur neitað því að hafa kýlt Tinu nema í seinasta skipti sem þau rifust, hann sló hana víst bara. í viðtali þegar verið var að kynna myndina var hann var spurður nánar út í ofbeldið gagnvart Tinu og hvort hann sjái eftir því og þá sagði hann að það hefði aldrei verið það alvarlegt, hún væri ekki með nein ör og hvað sem hann hefði gert þá hefði það gert hana að því sem hún er í dag. Ég hef eiginlega ekki geð í mér til að kryfja svör hans dýpra en það að komast að þeirri niðurstöðu að maðurinn átti greinilega við alvarleg geðræn vandamál að stríða sem og auðvitað fíkn í eiturlyf.
9 staðreyndir um What’s Love Got to Do with It?
- Tina Turner hefur alltaf sagt að hún hafi ekki séð myndina og langi ekki að sjá hana, hún segir að henni hafi þótt nóg að upplifa þetta einu sinni og þurfi ekki áminningu um ofbeldið sem hún þurfti að þola.
- Af þessari ástæðu kom hun ekki mikið að framleiðslu myndarinnar en hún kom þó eitthvað að danskennslu Angelu Bassett og hjálpaði henni við að móta karakterinn.
- Angela Bassett “mæmaði” öll lögin í myndinni en Laurence Fishburne söng alla sína parta sjálfur.
- Laurence Fishburne var búinn að neita fimm sinnum að leika Ike Turner áður en hann heyrði af því að Angela Bassett hefði tekið að sér hlutverk Tinu Turner og þá loksins þáði hann hlutverkið.
- Karakterinn Jackie er spunninn upp fyrir myndina en hún er sett saman úr ýmsum vinum Tinu á þessum tíma, það þótti einfaldara fyrir myndina að setja þessa vini saman í eina persónu.
- Atriðið sem JayZ og Beyonce ákváðu að gera frægt aftur í laginu “Drunk In Love” með því að vitna í það með setningunni “Eat the cake, Anna Mae” var ekki svona líkamlega ofbeldisfullt í raun og veru. Atvikið átti sér þannig stað að Tina pantaði sér mat sem var seinn svo þjónustustúlkan færði henni köku á meðan hún beið eftir matnum. Tina vildi ekki borða kökuna en Ike neyddi hana engu að síður til þess, þó með engu líkamlegu ofbeldi. Persónulega verð ég samt að segja að mér finnst það ekkert svakalega mikið betra svo ég ætla að halda áfram að hlusta ekki á “Drunk In Love”.
- Whitney Houston var boðið aðalhlutverkið en þurfti að hafna því þar sem hún var ólétt af Bobbi Christinu.
- Hlutar af myndinni eru teknir upp í húsinu sem Ike og Tina Turner bjuggu í á meðan þau voru gift þar sem framleiðendurnir komust að því að húsið var í mjög svipuðu ástandi og það hafði verið í á þeim tíma, sama veggfóðrið var meira að segja uppi.
- Jenifer Lewis sem leikur móður Tinu í myndinni er bara tveimur árum eldir en Angela Bassett.
Ef það er meira en sólarhringur síðan þú sást þessa mynd síðast þá mæli ég með að þú skellir henni í tækið strax í kvöld!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.