Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.
Ég hafði aldrei séð Welcome to the Dollhouse áður en ég horfði á hana sérstaklega til að skrifa um hana í fimmtudagsmyndinni. Ástæðan fyrir því að mig langaði að skrifa um hana er einföld, mig hafði alltaf langað að sjá hana þegar ég var yngri og ég hafði alltaf tekið eftir hulstrinu þegar ég fór út á leigu en því miður var ég bara alltof óörugg þegar ég var yngri til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og til að leigja þessa óauglýstu mynd með nær gjörsamlega óþekktum leikurum án þess að nokkur vina minna hefði minnst á hana.
Welcome to the Dollhouse (1995) fjallar um Dawn Wiener (Heather Matarazzo). Dawn er 12 ára og eyðir dögunum í það að láta sig dreyma um Steve Rodgers (Eric Mabius) eldri strákinn sem er með bróður hennar í hljómsveit. Hún er ekki vinsæl, hún er ekki sæt og hún er með alveg svakalega fráhrindandi persónuleika, svo lífið brosir við Dawn!
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Welcome to the Dollhouse:
1. Dawn Wiener
Dawn er eins og kvenkyns útgáfan af Napoleon Dynamite, hún kom bara fram á sjónarsviðið um það bil 10 árum fyrr, er aðeins yngri og eyðir sumrunum sínum ekki með frænda sínum í Alaska við að veiða úlfa.
Hún er með réttu hreyfingarnar:
Hún er með rétta fatastílinn:
Og hún kann svo sannarlega bestu móðganirnar:
2. Systkinaástin
Persónulega hef ég alltaf átt í mjög góðu sambandi við systur mína en ég var mjög fljót að fara í fýlu sem barn og mjög þrjósk svo ég kannaðist alveg við nokkur atriði…
3. Hræðilegu unglingsárin
Þó að myndin sé fáranlega fyndin þá er hún alveg jafn óþægileg og hún er fyndin. Þó að Dawn sé með einn undarlegasta persónuleika sem maður hefur komist í kynni við þá getur maður ekki annað en fundið til með henni. Maður kannast að einhverju leyti við allt sem hún gengur í gegnum frá því á unglingsárunum og þá sérstaklega við þá tilfinningu að enginn standi með manni og að enginn skilji mann…sem þegar maður litur til baka var kannski smá dramatísk hugsun en manni fannst engu að síður sönn. Vorum ég og Dawn nokkuð einar í þessu??
Það er ekki hægt að neita því að Welcome to the Dollhouse er snarundarleg mynd. En hún snertir samt sem áður á raunverulegum málefnum á fyndinn hátt. Fyrst þegar ég horfði á hana þurfti ég að stoppa myndina eða líta í burtu oftar en einu sinni af því mér fannst Dawn svo vandræðaleg og líf hennar hreint út sagt svo aumkunarvert en svo mundi ég eftir mínum unglingsárum sem voru ekki neitt svakalega mikið minna pínleg en þá eyddi ég dögunum í að hringja í Frostrásina (FM957 Akureyrar) að biðja um ástarkveðjur til stráksins sem ég var skotin í, mætti í hvítum hlýrabol og hvítum Tark buxum með hvítan augnblýant á skólaball og kom heim úr skólanum á hverjum degi og dansaði við Lemon Tree inn í herbergi hjá systur minni áður en hún kom heim úr skólanum og rak mig út. Ég sem betur fer losnaði samt við stríðnina og ömurlegu fjölskylduna sem Dawn þarf að þola!
Welcome to the Dollhouse vakti ekki neina svakalega eftirtekt þegar hún kom fyrst út en er í dag er hún með 7.5 í einkunn á IMDB og er orðin að költ-mynd og í sérstöku uppáhaldi meðal vissra hópa.
Ef þú fílaðir Napoleon Dynamite og ef þú sveifst ekki um á bleiku skýji öll unglingsárin þá er þetta myndin fyrir þig!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.