Tinna eik rakelardóttir skrifar um kvikmyndir
Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.
≈
The Whistleblower er kannski ekki í eldra lagi líkt og er með flestar fimmtudagsmyndirnar en hún hefur að mínu mati aldrei fengið þá athygli sem hún á skilið.
The Whistleblower (2010) er byggð á sönnum atburðum og fjallar um störf Kathryn Bolkovac (Rachel Weisz) á eftirstríðsárunum í Bosníu og Hersegóvinu.
Kathryn var í lögreglunni í Nebraska í Bandaríkjunum áður en hún fékk tilboð um hátt launað starf hjá verktaka á vegum Sameinuðu þjóðanna, hún vann sig fljótt upp en var rekin nær jafn fljótt vegna máls sem hún vann að þar sem hún fletti ofan af samstarfsfélögum sínum sem soru að taka þátt í mansali með ungar stúlkur.
Árið 2002 vann hún mál gegn vinnuveitanda sínum en hún lögsótti hann vegna ólögmætrar uppsagnar.
Umræðan um vændi vakti áhugann aftur
Ég fékk áhuga á að horfa á The Whistleblower aftur, eftir að hafa séð hana fyrst rétt eftir að hún kom út, vegna umræðunnar sem allt varð vitlaust út af um daginn, það er umræðunnar um ákvörðun Amnesty International um það að styðja lögleiðingu allrar vændisstarfsemi.
Í skrifum mínum hér á Pjattinu hef ég gert viðhorf mín til vændis nokkuð skýr (til dæmis hér og hér), The Whistleblower sýnir dökka mynd af þessum heimi og sýnir um leið að stofnunum og háttvirtum nöfnum á aldrei að treysta í blindni.
Myndin sínir vel þá fáranlegu meðferð sem þeir sem þora að tala gegn mikilsvirtum og valdamiklum samtökum fá en Kathryn hefur aldrei fengið vinnu aftur innan alþjóðasamfélagsins eftir þetta.
Yfirmaður hennar sem vitnaði með henni var einnig rekin nokkrum árum á eftir henni og vann líka málið sem hún höfðaði gegn Sameinuðu Þjóðunum um ólögmæta uppsögn.
Maður myndi halda að virt samtök líkt og Sameinuðu Þjóðirnar kynnu að meta hreinskilni og það að einhver væri tilbúinn til að ljóstra upp um hvað væri að gerast innan þeirra vébanda.
Þó að efni myndarinnar eitt og sér sé alveg nóg til þess að horfa á hana einu sinni, þá kemur það ekki að sök að í henni er fjöldi góðra leikara í mismunandi stórum hlutverkum. Fyrir utan Rachel Weisz, sem leikur aðalhlutverkið, má nefna Vanessu Redgrave(Howard’s End), Monicu Belucci(Matrix Reloaded), David Strathairn(The Blacklist), Benedict Cumberbatch(Sherlock), Liam Cunningham(Game of Thrones) og Pilou Asbæk(Sex, Drugs and Taxation og Borgen).
Konur fluttar gegn vilja sínum
Þó að vændi og mansal haldist ekki alltaf í hendur þá er mansal of oft fylgifiskur vændis, meira að segja í þeim löndum þar sem mansal er löglegt.
Flest fórnarlömb mansals sem tengist vændi eru flutt til Hollands og Þýskalands og þessi þróun mun að líkindum aðeins verða verri ef öll starfsemi í kringum vændi verður gerð lögleg.
Konur, og í einhverjum tilvikum menn frá fátækari hlutum heimsins flytja, eða eru flutt gegn vilja sínum eða með fölskum boðum, til ríkari landa í von um betra líf.
Þar sjá þau sig svo tilneydd til að vinna störf sem Vesturlandabúar kæra sig ekki um að vinna.
Annað hvort eru þessi störf láglaunastörf eða vændi og ef það er einhver sem lánaði þér fyrir farinu sem heldur vegabréfinu þínu og jafnvel fjölskyldunni þinni í gíslingu þar til þú hefur borgað upp skuldina getum við alveg giskað á hvor “kosturinn” verður fyrir valinu.
Sjáðu hana til skerpa á þekkingu þinni og meðvitund
Aðrar kvikmyndir sem fjalla um svipað efni og ég mæli með eru til dæmis: Lilya 4-ever, Human Trafficking, Svetlana’s Journey, Cargo: Innocence Lost, Streetwise og Trade.
The Whistleblower er mynd sem allir ættu að sjá, til að minna sig á ábyrgð okkar gagnvart þeim sem eru minni máttar í samfélaginu.
Líka til að minna okkur á að frelsi einstaklingsins, til dæmis það að stunda eða kaupa vændi, vegur ekkert á móti því ofbeldi sem þetta frelsi hefur óneitanlega í för með sér og til að fá skýrari mynd af þessu risastóra vandamáli sem við kjósum alltof oft að loka augunum gagnvart.
__________________________________________________
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.