Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum
≈
The Pest er ein af myndunum sem ég leigði á viðburðalitlu kvöldi bara út af því að ég tók eftir hulstrinu, ég man ekki einu sinni eftir að hafa lesið aftan á hana til að athuga um hvað hún væri.
Hún er ein af fáum ef ekki bara eina myndin sem ég leigði á þennan hátt sem ég elska ennþá í dag.
The Pest (1997) fjallar um Pestario Vargas (John Leguizamo) sem býr í Miami og stundar það að afla sér tekna með því að blekkja fólk með hjálp vina sinna Ninja og Chubby. Þó að Pest vinni líka á kínverskum veitingastað sem sendill gengur honum ekkert alltof vel að afla sér tekna og skuldar skosku mafíunni í rauninni 50.000$. Honum til mikillar lukku…eða ólukku…rekst hann á Gustav Shank sem býðst til þess að greiða honum 50.000$ ef hann gerir honum einn pínulítinn greiða…leyfir honum að veiða sig.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá The Pest:
1. Himmel
Samskipti Himmels og Pest ættu að vera skráð niður í sögubækurnar fyrir skemmtilegustu samskipti fyrr og síðar. Það skemmir svo ekki fyrir því hvað Himmel er fyndinn að leikarinn sem leikur hann heitir Edoardo Ballerini (ég veit það er ljótt að hlæja af nöfnum fólks…)
2. “One-liner-arnir”
3. Sean Connery á afmæli (25. ágúst)
The Pest byrjar frábærlega en endirinn er því miður ekki eins frábær það er smá eins og þeir sem skrifuðu myndina hafi dottið í hug helling af góðum brandörum og hlaðið þeim öllum á byrjunina og síðan ekki nennt að skrifa meira.
Byrjunin er samt svo svakalega góð að ég er viss um að ef myndin hefði haldið eins vel áfram þá hefði þessi mynd verið mun vinsælli, hjá öðrum en mér það er að segja, því ég elska þesa mynd heitt þrátt fyrir endann 🙂
Ég mæli klárlega með The Pest ef þú ert í skapi fyrir smá kjánalegheit með dash af aðeins meiri kjánalegheitum!
Nennum við að ræða það smá líka að Macarena er virkilega stiklu-lagið fyrir þessa mynd…þá hlýtur hún bara að vera góð er það ekki??
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.