Það var engin önnur en stórvinkona mín hún Jennifer Lawrence sem minnti mig á að snilldarmyndin The First Wives Club væri yfirleitt til þegar hún tók við Golden Globe verðlaununum sínum fyrir Silver Linings Playbook á seinasta ári og vitnaði í myndina.
The First Wives Club var frumsýnd árið 1996.
Á þeim tíma var ég 10 ára en þrátt fyrir að myndin fjallaði um fráskildar konur sem eru 35 árum eldri en ég þá var ég einhverra hluta vegna mjög æst í að fara á hana í bíó (líklega vegna þess að ég hef alltaf og mun alltaf dýrka Diane Keaton) og ég varð himinlifandi þegar ég fékk að fara með mömmu og vinkonum hennar.
Það eina sem ég man frá þessari bíóferð enn í dag eru í fyrsta lagi hlátrasköllin í mömmu og vinkonum hennar, sem í sannleika sagt hlæja ekki neitt í líkingu við það sem hefði þótt sæma dömum fyrir u.þ.b. 100 árum síðan. Í öðru lagi mundi ég svo eftir dans/söngvaatriðinu í enda myndarinnar sem mér fannst vera hápunktur siðmenningarinnar á þessum tíma.
Fyrir þá sem ekki hafa séð The First Wives Club þá fjallar hún um þrjár vinkonur sem hafa þekkst síðan í háskóla en hafa ekkert verið í sambandi síðan. Þær hittast svo þegar þær eru komnar á fimmtugsaldurinn í jarðaför sameiginlegrar vinkonu sinnar sem framdi sjálfsmorð sama dag og fyrrverandi eiginmaður hennar giftist mun yngri konu. Þær komast svo sjálfar að því að þær eru allar á mjög svipuðum stað í lífinu, eiginmenn þeirra allra eru að skilja við þær og eru komnir með nýjar og yngri konur. Í sameiningu ákveða þær svo að hefna sín á þeim með ýmsum skemmtilegum aðferðum.
Myndin er vægast sagt stjörnum prýdd en í henni leika fimm Óskarsverðlaunahafar, Diane Keaton , Goldie Hawn, Marcia Gay Harden, Maggie Smith (Harry Potter) og Eileen Heckart, og þrír leikarar sem hafa verið tilnefndar til Óskarsverðlauna, Stockard Channing, Rob Reiner og Bette Midler. Þar að auki leika Sarah Jessica Parker, Timothy Olyphant og Dan Hedaya (Clueless) í myndinni og í aukahlutverkum birtast Heather Locklear, Ivana Trump, Kathie Lee Gifford og Gloria Steinem.
The First Wives Club er ekta 90’s grínmynd sem þýðir að auðvitað eru yfirdrifin grínatriði og óþarflega kellingalegur klæðnaður miðað við aldur (sjá Bette Midler) við lýði.
Þegar hún var gerð hafði kvikmyndaverið enga trú á henni og þá sérstklega vegna þess að hún opnaði sömu helgi og stórar hasarmyndir með karlkyns stjörnum. The First Wives Club rústaði þeim hins vegar og hafnaði í fyrsta sæti listans, í framhaldi af velgengni myndarinnar vildu Bette, Diane og Goldie gera framhaldsmynd en hún var ekki gerð þar sem kvikmyndaverið sem sá um framleiðsluna hafði enn enga trú á myndinni og sagði velgengi vera hennar slembilukku. Þrátt fyrir að það þyki margsannað í dag að “konumyndir” hala inn meiri pening en “karlamyndir” þá er þessu viðhorfi því miður enn viðhaldið í Hollywood, það eru mun frekar framleiddar rándýrar hasarmyndir heldur en myndir í stíl við The First Wives Club sem kosta oft ekki það mikið í framleiðslu.
Eftir að horfa á The First Wives Club aftur komst ég í fyrsta lagi að því að dansatriðið er ennþá eins æðislegt og mig minnti og í öðru lagi að því að takmarkið mitt í lífinu er klárlega það að eignast það mikinn pening að ég muni hafa efni á höfrungakrana!
Mér finnst ótrúlega gaman að horfa á myndir frá þessum tíma, ekki bara til að sjá tískuna eða af því þær minna mig á tímann þegar ég var að alast upp heldur líka vegna þess að það er svo gaman að koma auga á uppáhaldsleikara sína í dag vera að taka sín fyrstu skref í leiklistarbransanum. Það er svo auðvitað bara svakalegur plús þegar maður hittir á gullmola eins og þessa mynd. Í henni eru frábærir leikar, geggjað grín og svo skemmir klikkaður (og oftast nokkuð óraunverulegur söguþráðurinn) ekki fyrir… og hvað þá gullmolarnir sem má finna um alla mynd:
The First Wives Club er fullkomin til að kíkja á með vinkonunum…og hún verður jafnvel fyndnari og skemmtilegri ef maður kemur sér aðeins í bitra gírinn áður en maður “skellir henni í tækið”.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=AI5OgeZt020[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.