Þeir sem upplifðu 10. áratuginn muna líklega eftir því að þá þótti allt tengt öndum og óþekktum öflum alveg þónokkuð kúl.
Reykelsi, milljón kerti, andaspil og tarot-spil og bara nefndu það allt sem þótti smá dularfullt varð vinsælt (sagði einhver X-files?).
Einnig þótti Skeet Ulrich líka vera með heitari mönnum svo þegar Skeet, reykelsi, tarot og kerti voru sett saman í eina mynd þótti nokkuð öruggt að Hollywood væri komið með hittara.
The Craft (1996) fjallar um Sarah (Robin Tunney – The Mentalist) sem flytur til L.A. frá San Francisco og þarf að byrja í nýjum skóla þar. Í nýja skólanum kynnist hún þremur stelpum, Nancy (Fairuza Balk – American History X), Bonnie (Neve Campbell – Scream) og Rochelle (Rachel True), sem hafa verið að fikta við galdra. Með komu Sarah í vinahópinn færist þetta fikt á annað stig og afleiðingarnar verða svakalegar.
Aðrir leikarar sem margir eiga eftir að kannast við í myndinni eru þeir sem eru Breckin Meyer (Clueless), Christine Taylor (Zoolander) og Brenda Strong (Desperate Housewives).
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá The Craft:
1. 90’s/Goth-tíska upp á sitt besta:
2. Til að rifja upp táningsskotið í Skeet Ulrich (þó hann leiki alltaf skíthæla):
3. Til að ímynda þér aftur og aftur hve lífið væri miklu auðveldara ef það væri svona auðvelt að skipta um háralit:
Við skulum alveg líta fram hjá því hvað þetta atriði hér að ofan er óraunverulegt… þetta hefur samt verið draumurinn síðan ég var 10 ára og sá þessa mynd fyrst.
Ég er vanalega ekki mikið fyrir hryllingsmyndir en einhverra hluta vegna hefur The Craft alltaf heillað mig eitthvað enda er bara eitt atriði í myndinni sem er virkilega hryllilegt og spennuþrungið. Það er líklega vegna þess að þegar ég sá hana fyrst var ég eins og flestir jafnaldrar mínir nokkuð mikið heilluð af öllu sem tengdist göldrum og sérstaklega þá ef það fól í sér hæfileikann til að geta gert stráka eins og Skeet Ulrich heillaða af mér (jájá við skulum ekkert ræða það hvað það var óheilbrigt að mér hafi fundist heillandi að einhver myndi elska mann á þann hátt sem hann elskar í myndinni).
Ég var alveg búin að gleyma þessari mynd þar til vinkona mín stakk upp á því að ég myndi fjalla um hana sem fimmtudagsmyndina og ég horfði á hana aftur og það var alveg þess virði. Þó hún sé að mörgu leyti bara enn annað táninga-hryllings-drama þá er svo margt skemmtilegt við hana þó að þeir sem eru hræddir við skriðdýr ættu kannski að loka augunum í seinasta atriðinu en stelpurnar eru nokkuð flottar fram að því.
Endilega tékkið á The Craft um helgina ef ykkur vantar einhverja yfirnáttúrulega skemmtun:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=DoM4OXQVCcE[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.