Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.
Upphaflega horfði ég eingöngu á The Basketball Diaries af því Leonardo DiCaprio leikur aðalhlutverkið. En hún er enn í dag uppáhalds myndin mín með honum og bara ein uppáhaldsmyndin mín fyrr og síðar.
The Basketball Diaries (1995) er byggð á sjálfsævisögu rithöfundarins, skáldsins og tónlistarmannsins Jim Carroll. Myndin fylgir Jim eftir þegar hann er 15 ára, hann býr hjá móður sinni á Manhattan og hann gengur í strangan kaþólskan skóla.
Hann eyðir dögunum með þrem vinum sínum að slæpast, sniffa lím og spila körfubolta á milli þess sem hann heimsækir besta vin sinn Bobby á spítala. Áður en langt um líður er hann farinn að ánetjast hörðum fíkniefnum og dagarnir snúast eingöngu um það að komast í vímu.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá The Basketball Diaries:
1. Leonardo DiCaprio
Aðallega af því hann er svo frábær leikari, meira að segja þarna þegar hann er bara 18 ára…smá af því hann er svo sætur…
2. Tilvitnanir
Jim er stöðugt að skrifa í dagbókina sína meira að segja á því tímabili sem hann er í mjög harðri neyslu. Sumar tilvitnanirnar eru mjög týpískar fyrir 15 ára ungling, aðrar týpískar fyrir einstakling í harðri neyslu, enn aðrar eru einfaldlega bara fallegar.
3. Forvarnir
Ég get engan vegin sagt að allir foreldrar verði að horfa á þessa mynd með unglingnum sínum, en ég mæli samt með því að sem flestir horfi á þessa mynd og horfi svo á hana með unglingnum sínum þegar þeim finnst hann eða hún vera nógu gömul.
Ég horfði sjálf á hana þegar ég var 13 ára og vissulega var hún sjokkerandi en hún spilaði stóran part í því að ég hafði engan áhuga á því að prófa vímuefni af neinu tagi á unglingsárunum. Það sem spilaði stóran þátt í því hvað þessi mynd hafði mikil áhrif á mig er það að hún er sannsöguleg.
“…and there’s us street kids. Start fucking around very young, 13 or so. Think we all got it under control, wont get strung out. This rarely works, I’m living proof, but in the end you just gotta see the junk is another 9 – 5 gig. The hours are just a bit more inclined to shadows.”
Jim Carroll, sá sem myndin fjallar um, er með cameo hlutverk í myndinni, eitt eftirminnilegasta aukahlutverkið. Hann leikur manninn í eiturlyfjagreninu sem segir frá því þegar hann fór í messu til að losa sig við fíknina en lyktin af reykelsunum minnti hann svo mikið á heróín að hann þurfti að fara út og fá sér heróín.
Jim var samt ekki fullkomlega sáttur við myndina og fannst hún alltof “tæknileg” og ekki nógu bókmenntaleg.
Honum fannst endirinn líka væminn en hann talaði um það að þó hann hefði ekki verið ánægður með valið á Leonardo DiCaprio í byrjun þá hefði hann verið sannfærður um að hann væri réttur í hlutverkið eftir að hann sá hann í prufum. Hann talaði einnig um að Mark Wahlberg hefði verið fullkominn í sínu hlutverki.
Upphaflega var það River Phoenix sem vakti athygli á því að gera ætti bókina að mynd þegar hann lýsti yfir áhuga á því að leika aðalhlutverkið í henni. Þegar loksins kom að því að gera myndina fannst honum hann samt vera orðinn of gamall til að leika 15 ára ungling, enda orðinn 23 ára, hann lést svo skömmu seinna vegna þess að hann tók inn of stóran skammt af kókaíni og morfíni.
Fjölmiðlar skemmtu sér svo ósmekklega að því að segja að hann hefði misst af þessu tækifæri vegna þess að hann hefði lifað of mikið eins og Jim Carroll.
Það var löngu kominn tími fyrir mig að rifja þessa upp og ég mæli með að sem flestir skelli henni á um helgina, hvort sem það er til upprifjunnar eða til að horfa á hana í fyrsta skiptið!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.