Fyrsta leikkonan sem ég hélt upp á var Reese Witherspoon og líklega hefur það verið vegna hennar sem ég horfði á myndina S.F.W. í fyrsta skiptið.
Ég man ekkert hvað ég var gömul fyrst þegar ég sá þessa mynd en ég man að þrátt fyrir að ég væri alltof ung til að horfa á hana þá varð ég heilluð um leið og hef síðan þá horft óteljandi oft á hana.
Ég hélt einhvernvegin alltaf að allir vissu hvaða mynd þetta væri en mér til mikillar furðu hefur það komið á daginn að svo er ekki. Þess vegna ákvað ég að S.F.W. yrði fimmtudagsmynd vikunnar, þar sem ég ætla að reyna að fjalla um “gamlar” myndir sem margir kannast ekki við eða eru búnir að gleyma.
S.F.W. (So Fucking What, 1994) fjallar um Cliff Spab (Stephen Dorff) sem ásamt félaga sínum Joe Dice, og nokkrum öðrum þar með talið Wendy Pfister (Reese Witherspoon), er haldið föngnum í 36 daga í matvöruverslun.
Allan tíman meðan þeim er haldið föngnum taka mannræningjar þeirra þau upp á tökuvélar en það sem þau vita ekki er að það er verið að sýna frá mannráninu um öll Bandaríkin af kröfu mannræningjanna. Myndin byrjar þegar þau sleppa út og fjallar um brjálæðið sem verður til í kringum þessar nýju “raunveruleikastjörnur”.
Fyrir utan Stephen Dorff, sem er kannski ekki svo þekktur í dag en var einn aðal-“hjartaknúsarinn” á tíunda áratugnum, og Reese Witherspoon eru ekki margir þekktir sem leika í S.F.W. þeir sem helst ber að nefna eru Jake Busey (Starship Troopers, Tomcats, Enemy of the State), sem er líklega helst þekktur fyrir að leika óþolandi skíthæla allan tíunda áratuginn. Joey Lauren Adams (Dazed and Confused, The Break-Up og nærri því allar Kevin Smith myndir). Jack Noseworthy sem flestir kannast líklega bara við úr myndbandinu við “Always” með Bon Jovi…ég horfði líklega á það myndband sirka 5 sinnum á dag þegar ég var 12 ára þar sem ég var 50% ástfangin af Jon Bon Jovi og 50% hárinu á Keri Russel. Sumir gætu líka þekkt Amber Benson sem lék Töru Maclay í Buffy the Vampire Slayer.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá S.F.W.:
1. Tobey Maguire í ógleymanlegu aukahlutverki sem ég vil meina að hafi startað ferlinum hans 😉
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=j4Lx_zgqaAU[/youtube]
2. Stephen Dorff (af hverju er hann ekki ennþá frægur…ég gúgglaði og hann er alveg að lúkka vel þessa dagana!)
3. Frábær 90’s tónlist!
Ég vil meina að ástæðan fyrir því að margir sáu ekki S.F.W. á sínum tíma sé sú að hún fékk vægast sagt hörmulega dóma. Aðalpersónunni var lýst sem ömurlega leiðinlegum, ófyndnum gaur sem hefði ekkert að segja og söguþráðurinn var sagður ósannfærandi. Ég er engan vegin á sama máli, vissulega eru hallærisleg atriði í henni inn á milli, enda ódýr mynd sem leikstjórinn sjálfur hefur sagt að eigi að vera smá halló, en ég held að ástæðuna fyrir slæmu dómunum megi rekja til þess að þessi mynd á eflaust meira erindi við fólk í dag en hún átti á sínum tíma. Oft er samt talað um hana sem eina af þeim myndum sem talar hvað best til “X” kynslóðarinnar (fólk fætt frá 1960-1980).
Ástæðan fyrir því að S.F.W. talar ef til vill meira til okkar í dag en hún gerði þegar hún kom út er eflaust sú að raunveruleikasjónvarp og frægðin sem því tengist er orðin margfalt klikkaðri en hún var árið 1994 og fólk virðist vera orðið enn gegnumsýrðara af því slæma efni (afsakið sleggjudómana en maður á víst alltaf að segja það sem manni finnst) sem raunveruleikasjónvarp býður upp á. Hvað varð til dæmis til þess að það var ekki bara hætt að framleiða nýja raunveruleikaþætti eftir Temptation Island? Voru þeir virkilega ekki nógu slæmir?
Ég er ekki að segja að ég hafi ekki horft á Temptation Island (Áfram Mandy og Billy!) en hey ég framleiddi allavega ekki þættina :/
Fyrir utan góða sögu sem hægt er að pæla í og nokkur vandræðaleg atriði er alveg einstaklega gaman að fylgjast með Spab “fljóta” í gegnum myndina og segja og gera bara nákvæmlega það sem hann langar til…sem oftar en ekki er algjör steypa!
Tískan og lúkkið á myndinni er ekkert til að minnast neitt sérstaklega á fyrir utan þennan eina bol…
Endilega tékkið á S.F.W. um helgina, það er ef þið finnið hana einhversstaðar…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=CLQ_dlkA6sU[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.