≈
Fimmtudagsmyndin er valin einu sinni í viku flestar vikur ársins og líkt og nafnið gefur til kynna er hún kynnt á fimmtudögum. Þær myndir sem eru valdar geta verið allt frá fjölskyldumyndum til hryllingsmynda, valið er algjörlega byggt á því í hvaða skapi ég er í þá vikuna, en allar eiga þær það sameiginlegt að vera kvikmyndir í eldra lagi sem hafa einhverra hluta vegna gleymst með árunum.
Þegar ég var 9 ára stunduðum við besta vinkona mín það að stelast í vídeóspóluskápinn heima hjá henni í hvert einsta skipti sem við vorum einar heima. Í flest skiptin stálumst við í einhverjar frekar blóðugar myndir eins og Leon og 12 monkeys en eitt skiptið ákváðum við að kíkja á Reality Bites, ég held ég hafi lítið skilið um hvað hún var á þeim tíma en það þurfti ekki meira en Ethan Hawke til þess að ég flokkaði hana með einni af mínum uppáhaldsmyndum. Eftir að ég fór að skilja um hvað myndin fjallaði hefur myndin svo bara hækkað í áliti hjá mér.
Reality Bites (1994) fjallar um Lelaina Pierce (Winona Ryder) sem er nýútskrifuð úr háskóla. Hún útskrifaðist með hæstu einkun í sínum árgangi en er samt ekki undanskilin því að vita lítið hvað hún ætlar að gera til þess að uppfylla drauma sinn um að vinna að kvikmyndagerð eða í sjónvarpi. Eftir útskrift fer Lelaina að einbeita sér að því að taka upp heimildarmynd um þetta stefnuleysi sem einkennir þennan aldur með vini sína Vicki (Janeane Garofalo), Sammy (Steve Zahn) og Troy (Ethan Hawke) í aðalhlutverkum.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Reality Bites:
1. My Sharona
Okei þetta er ein besta ef ekki sú besta mynd sem ég hef séð um tilvistarkreppu ungs fólks en þetta er bara svo gott lag og svo gott atriði. Fyrir mig á þetta lag svo alltaf sérstakan stað í hjarta mínu af því að ég var með það sem hringingu á símanum mínum í þrjú ár og þess vegna voru alltaf allir í kringum mig (þar með talið ég sjálf) með það á heilanum. Draumurinn og langtímamarkmiðið er svo að sjálfsögðu sá að kynnast einhverri stelpu sem heitir Sharona svo ég geti sett þetta lag sem hringingu þegar hún hringir í mig…
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=bbr60I0u2Ng[/youtube]
Atriðið í kringum þetta lag er svo bara smááá best:
“Could you turn this up please? …please? …you won’t be sorry!”
2. Vickie Miner
Janine Garofalo, leikkonan sem leikur Vickie, hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hún er bara einn mesti töffari sem ég veit um og Vickie er hinn fullkomni karakter fyrir hana að mínu mati. Hún er með flottan topp, æðislegan fatasmekk, segir það sem hún hugsar og er full af visku:
Hennar vegna ber íbúðin mín líka nafnið “The Maxi Pad” og fyrir þá sem eru að hugsa það, nei það er ekki kúl ef þú skírir þína íbúð það líka!
3. Ethan Hawke
“Save the best for last” er það ekki? Ethan Hawke leikur í þessari mynd og hann er 24 ára, þarf að segja eitthvað meira? Kannski eitt warrrrr…
Það eyðileggur svo ekki fyrir heitleika hans hvað hann leikur gjörsamlega ónýtan einstakling sem kann ekkert á lífið. Ef það er einhver eins og ég þarna úti sem hugsar: “ég veit að ég gæti bjargað Troy Dyer” þá er viðkomandi í fyrsta lagi alveg eins og ég og í öðru lagi álíka glórulaus og ég þegar kemur að karlmönnum (til hamingju!). En aðalmálið er samt að Ethan Hawke, eini maðurinn fyrir utan Johnny Depp sem er heitur með “goatee”, leikur í þessari mynd.
5 staðreyndir um Reality Bites:
- Þetta er fyrsta kvikmyndin sem Ben Stiller leikstýrir og hann leikur líka aukahlutverk í myndinni.
- Systir Ben Stiller, Amy Stiller leikur símaspákonuna í myndinni. Mamma Ben Stiller, Anne Meara, leikur líka í myndinni. Hún er konan sem biður Lelaina að skilgreina kaldhæðni.
- Takið vel eftir píunni sem Ethan Hawke yfirgefur á pallinum í byrjun myndarinnar, hún er leikin af Renée Zellwegger en þetta er fyrsta kvikmyndin sem hún leikur í.
- Stelpan sem skrifaði myndina var 19 ára þegar hún skrifaði handritið og hefur ekki skrifað neitt síðan, en hún skrifaði aðalhlutverkið með Winonu Ryder í huga.
- Þessi mynd er það góð að hún nær að gera U2 lag gott…Friends nær ekki einu sinni að gera það!
Myndin er fallega skrifuð, fallega leikin en samt ekki þung heldur tekur meira á alvöru málefnum á léttan hátt. Persónulega finnst mér engin önnur mynd sem ég hef séð líkjast Reality Bites og ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé að hún kemur úr smiðju Ben Stiller, sem gerir að sjálfsögðu oft gæðamyndir en samt sem áður engar í líkingu við þessa.
Það hafa flestir ef ekki allir heyrt um Reality Bites en ég er alltaf að rekast á fleiri og fleiri sem hafa ekki séð hana, ef þú ert ein/n af þeim sem hafa ekki séð hana drífðu þá í því! Helst ekki seinna en í dag!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.