Árið 1994 er mér sérstaklega minnisstætt þar sem ég stundaði Háskólabíó grimmt á því ári og byrjaði þá fyrst að fara á “fullorðinsmyndir” sem mér fannst á þeim tíma bara það merkilegasta við það að verða eldri.
Ég man ennþá eftir öllu “hæpinu” sem varð til í kringum Muriel’s Wedding, það urðu bara allir að sjá hana! Og þó ég væri bara átta ára þá taldi ég mig með í þeim hópi. Plakatið fyrir myndina skemmdi svo ekki fyrir, sæt stelpa (Þó að Toni Collette hafi þyngt sig um 20 kíló fyrir myndina sá ég enganvegin að hún væri neitt feit og fannst hún bara mjög sæt) með blóm og í prinsessukjól…jább ég ætlaði sko á þessa í bíó!
Eins og gefur að skilja þá skildi ég ekki mikið í umfjöllunarefni myndarinnar en hey það var dansatriði í henni og eins og oft áður þá var það nóg til þess að þetta væri ein besta mynd sem ég hafði séð!
Muriel’s Wedding (1994) er áströlsk kvikmynd sem fjallar um hina mjög svo sorglegu tuttugu og tveggja ára gömlu Muriel (Toni Collette). Muriel er atvinnulaus og býr heima hjá foreldrum sínum í smábænum Porpoise Spit ásamt fjórum systkinum sínum og öll fjölskyldan virðist vera hverju öðru vonlausara.
Muriel eyðir dögum sínum inn í herbergi að hlusta á Abba og láta sig dreyma um hjónaband. Eftir að vinkonur Muriel segja henni svo upp eltir hún þær samt sem áður til Bali þar sem hún kynnist Rhondu (Rachel Griffiths), þær verða bestu vinkonur og fara að leigja saman í Sidney. Eftir það breytist líf Muriel svo um munar…
Það eru engin stór nöfn í Muriel’s Wedding fyrir utan aðalleikonurnar tvær en margir leikaranna eru samt vel þekktir í Ástralíu og hafa leikið í fleiri kvikmyndum. Eru jafnvel fluttir til Hollywood þó fáir kannist við nöfnin þeirra.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Muriel’s Wedding:
1. Dansinn – Sorry með mig ég elska hallærisleg dansatriði í 90’s myndum:
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=9o94CFOQYjk[/youtube]
2. Vintage Toni Collette og Rachel Griffiths.
Fyndið að sjá hvað fólk virðist upp til hópa hafa yngst á þessum árum frá 90’s-10’s með hjálp betri tísku, betri snyrtivara og kannski stundum einhverri auka hjálp…
Það er líka gaman að vita að Rachel Griffiths og Toni Collette urðu bestu vinkonur eftir að leika í Muriel’s Wedding og eru það enn þann dag í dag, 20 árum seinna. Báðar leikkonurnar hafa líka verið tilnefndar til Óskarsverðlauna sem besta leikkona í aukahlutverki en hvorug þeirra hefur unnið, Toni fyrir The Sixth Sense (2000) og Rachel fyrir Hilary and Jackie (1998).
3. Lífsspekin:
Hver gullmolinn rekur annann í myndinni. Muriel er umkringd fólki sem virðist ekki hafa neitt vit í kollinum og hún sjálf virðist ekki geta hætt að gera lítið úr sjálfri sér. Hún er eins og Bridget Jones án örðu af sjálfáliti eða sjálfstrausti og þó það sé oftast sett upp í fyndinn búning þá getur líka verið hálfsorglegt að horfa upp á það hvernig hún fer með sjálfa sig og þá sem eru í kringum sig bara vegna þess hve lítið sjálfstraust hún hefur.
Þrátt fyrir að Muriel’s Wedding sé aðallega hugsuð sem gamanmynd (eða allavega er hún það í mínum huga) þá tekur hún alveg á alvöru málefnum og ég meiði mig til dæmis í hjartanu í hvert skipti sem greyið mamma Muriel birtist í myndinni og að sama skapi verð ég brjáluð í hvert skipti sem pabbi Muriel og Deidre koma fram í myndinni.
Þetta atriði er til dæmis líklega á topp 10 yfir sorglegustu atriði í kvikmyndasögunni:
Það er eigilega allt frábært við þessa mynd og ég skil ekki af hverju það er ekki munað meira eftir henni þó ekki væri nema bara fyrir Toni Collette í hvítum níðþröngum samfestingi að mæma “Waterloo” með ABBA. En ef þú hefur ekki gaman af ABBA þá er auðvitað hellingur af góðum bröndurum í myndinni sem enginn ætti að missa af:
Pabbi hennar Muriel kann svo sannarlega að gefa hrós!
Það er aldrei neitt betra en gott “burn”
Ef þér finnst þetta óviðeigandi komment taktu þá til greina að þetta er sagt við tvo Japani…svo mikið óviðeigandi að annað eins hefur varla sést!
Það er svo auðvitað best að í kvikmyndinni má finna fullkomna myndræna túlkun á því hvernig mér líður í hvert skipti sem það kemur ný frétt um það hvaða stelpu Niall Horan í One Direction er að deita (ef þú hefur ekki heyrt af þráhyggju minni af One Direction, sjá hér).
Þó þú hafir séð Muriel’s Wedding áður þá er um að gera að skella henni í tækið um helgina og svo kannski bara aftur helgina á eftir líka!
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=eTFCFThbwbo[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.