___
Mrs. Doubtfire (1993) fellur ekki beint undir vanalega flokkunina á fimmtudagsmyndum hjá mér, það er hún er ekki beint óþekkt heldur frekar þvert á móti. En vegna fráfalls Robin Williams í vikunni var auðvitað engin önnur mynd sem kom til greina fyrir mig að horfa á enda er Mrs. Doubtfire það hlutverk sem ég man best eftir Robin Williams í.
Fyrir þá sem ekki hafa séð Mrs. Doubtfire þá fjallar hún um fráskilinn leikara sem í örvæntingarfullri tilraun til þess að vera meira í kringum börnin sín dulbýr sig sem kvenkyns barnfóstru sem sér um börnin á daginn meðan konan hans er í vinnunni.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Mrs. Doubtfire:
1. Robin Williams
Ég held það séu flestir sammála um það að hann hafi verið frábær leikari og einstakur grínisti og það kemur vel fram í þessari mynd.
2. Make Over
Það er ekki neitt betra en gott make-over atriði!
3. Mrs. Doubtfire
Þetta er einfaldlega frábær karakter.
Þegar ég horfði aftur á Mrs. Doubtfire um daginn verð ég að segja að ég mundi ekki mikið eftir henni frá því þegar ég sá hana þegar ég var lítil og hún er miklu betri en ég hafði minni til. Vissulega er þetta klassísk 90’s fjölskyldumynd en hún er einnig drepfyndin þar sem Robin Williams var gefinn nokkuð laus taumur til að spinna sín atriði. Sagt er að það séu til svo margar mismunandi útgáfur af flestum atriðum myndarinnar að klipptar hafi verið PG, PG-13, R og NC-17 útgáfur af myndinni en hún átti alltaf að enda í PG-13 útgáfu sem hún gerði.
5 skemmtilegar staðreyndir um Mrs. Doubtfire
1. Blake Lively var næstum búin að fá hlutverk yngstu dótturinnar en Mara Wilson rétt náði að vinna hlutverkið og var þetta hennar fyrsta hlutverk.
2. Notaðar voru 2-3 myndavélar í hverju atriði með Robin Williams til að hægt væri að fylgja spunaleiknum hans eftir.
3. Mrs. Doubtfire 2 er búin að vera í vinnslu síðan árið 2003 en lokað var alveg á þann möguleika að framleiða hana þegar fréttir bárust af andláti Robin Williams.
4. Bæði Mara Wilson og Lisa Jakub sem leika dæturnar drógu sig út úr Hollywood eftir að hafa verið eftirtektarverðar barnastjörnur og báðar skrifuðu fallegar bloggfærslur um leikarann eftir að hann féll frá( Mara hér og Lisa hér).
5. Heimilisfangið sem gefið er upp í myndinni fyrir hús Hillard fjölskyldunnar er raunverulegt heimilisfang hússins sem notað er í myndinni:
Ef þú hefur ekki séð Mrs. Doubtfire þá hvet ég þig endilega til að drífa í því sem fyrst og ef þú hefur séð hana þá skaltu endilega horfa á hana aftur!
[youtube]http://youtu.be/IYyNDWjIivo[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.