Eftir að hafa séð Titanic einsetti ég mér að horfa á allar myndir sem ég komst yfir sem Leonardo DiCaprio og Kate Winslet höfðu leikið í. Ég horfði á flestar Leo myndirnar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, Heavenly Creatures horfði ég bara á einu sinni en hún hefur alltaf setið föst í mér.
Heavenly Creatures (1994) fjallar um Pauline Parker (Melanie Lynskey). Hún er 13 ára þegar myndin byrjar, er af millistéttarfjölskyldu og gengur í stúlknaskóla.
Einn daginn byrjar Juliet Hulme (Kate Winslet) í bekknum hennar og þær tengjast yfir því að báðar stríddu þær við mikil veikindi í æsku. Stelpurnar tengjast mjög fljótt og byrja að skrifa saman ævintýri og búa til sína eigin draumaveröld og verða mjög nánar. Foreldrar þeirra byrja að hafa miklar áhyggjur af sambandinu og halda að þær eigi í samkynhneigðu sambandi. Þegar foreldrar Juliet ákveða svo að senda hana til ættingja í Suður-Afríku og móðir Pauline bannar henni að fara með ákveða stelpurnar að hefna sín með því að myrða móður Pauline.
3 ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Heavenly Creatures:
1. Byggð á sannsögulegum atburðum
Myndin er byggð á sönnum atburðum og allir leikarar í myndinni voru valdir út frá því hve útlitslega þeir voru líkir fólkinu sem þeir léku.


Pauline og Juliet voru dæmdar fyrir morðið á Honorah Rieper og sátu báðar inni í 5 ár. Þær sátu inni í sitthvoru fangelsinu og þeim var sleppt í sitthvoru lagi. Ekki er talið að þær hafi verið í nokkru sambandi síðan þeim var sleppt lausum.
Juliet býr í dag í Bandaríkjunum hefur gengt nafninu Anne Perry síðan hún var látin laus úr fangelsi. Hún hefur skrifað frægar glæpasögur síðan árið 1979 en ekki komst upp um hver hún væri fyrr en nokkrum mánuðum eftir að Heavenly Creatures kom út.
Pauline býr í Englandi og rekur þar reiðskóla fyrir börn hún gegnir í dag nafninu Hilary Nathan. Hún hefur látið í ljós mikla eftirsjá vegna morðsins.
2. Peter Jackson
Myndin vakti mikla eftirtekt þegar hún kom út á sínum tíma og Time valdi hana meðal annars sem eina af bestu myndum ársins 1994. Hún gekk svo í endurnýjun lífdaga þegar Peter Jackson tók að sér gerð LOTR-þríleiksins og aðdáendur hans „púlluðu“ það sama og ég gerði með Kate og Leo árið 1999.
Myndin er fjórða kvikmyndin í fullri lengd sem Peter leikstýrði og sú fyrsta sem báðar aðalleikkonurnar léku í.

3. Pauline og Juliet
Eins hræðileg og þessi saga er þá er eitthvað heillandi við samband stelpnanna tveggja sem dregur mann inn og lætur mann ekki beint halda með þeim heldur finnast foreldrar þeirra ósanngjarnir.

Þegar litið er til þess að myndin er frumraun beggja aðalleikkvennanna þá er í raun ótrúlegt hversu vel myndin er heppnuð. Þær ná báðar fullkomlega að sýna fram á væntumþykjuna og geðveikina sem einkenndi samband þessara tveggja unglingsstelpna og það er lögð sérstök áhersla á þetta með myndatökunni sem og með litlum smáatriðum sem Peter Jackson fann upp á.
Mealnie og Kate voru mjög góðar vinkonur á meðan á tökum stóð og héldust oft í karakter á meðan þær voru á tökustað og fóru svo heim saman eftir tökur og slúðruðu í marga klukkutíma. Þær misstu svo algjörlega sambandið eftir tökurnar þar sem Melanie fór í háskóla en Kate skaust upp á stjörnuhimininn. Eftir að Melanie lék í kvikmynd þáverandi eiginmanns Kate Away We Go (sem ég mæli líka með) náðu þær að tengjast aftur.
Heavenly Creatures er hryllingsmynd fyrir þá sem líkar ekki vel við að láta bregða sér, unglingamynd fyrir þá sem vilja svolítið mikið drama og stelpumynd fyrir þá sem vilja smá brjálæði.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.