Fried Green Tomatoes (1991) er kannski frekar ólíkleg mynd til að vera í uppáhaldi hjá 9 ára barni en ég átti um lítið að velja á VHS safni heimilisins.
Myndin fjallar um Evelyn Couch (Kathy Bates) sem er gift Ed. Hjónabandið er nokkuð laust við alla ástríðu og rómantík en Evelyn reynir hvað hún getur til að þóknast eiginmanninum sem virðist líta á hana frekar sem húsgagn en nokkuð annað.
Frænka Eds er á vistheimili fyrir aldraða og þau hjónin fara reglulega að heimsækja hana, frænkunni er samt frekar illa við Evelyn sem endar með því að Evelyn situr alltaf fram í setustofu á meðan Ed heimsækir frænku sína. Það verður til þess að hún hittir Ninny Threadgoode (Jessica Tandy) sem segir henni söguna af Idgie (Mary Stuart Masterson) og Ruthie (Marie-Louise Parker).
Fyrir utan þessar konur eru fáir sem leika í Fried Green Tomatoes sem eru enn þekktir í dag, ber þá líklega helst að nefna Chris O’Donnell sem er kannski ekki þekktur í dag fyrir annað en að leika í verstu Batman myndum allra tíma.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Fried Green Tomatoes:
1. Þó að myndin sé ekki eiginleg gamanmynd þá er hún mjög fyndin á köflum:
2. Eitt fallegasta samband og ástarsaga í kvikmynd
3. Til að gráta smá…eða helling…
Held ég hafi aldrei byrjað að gráta eins snemma inn í mynd eins og þessari…vill ekki spilla sögunni fyrir þá sem hafa ekki séð hana en þetta atriði nær mér alltaf:
Þegar ég horfði aftur á Fried Green Tomatoes til að skrifa þennan pistil voru líklega allavega tíu ár síðan ég hafði séð hana síðast. Ég hafði alltaf ætlað mér að lesa bókina en hef einhvernvegin aldrei komið mér í það. Bókin er víst nokkuð frábrugðin myndinni þá sérstaklega þegar kemur að því að lýsa sambandi Ruthie og Idgie. Þegar ég horfði á myndina þegar ég var yngri hafði ég aldrei áttað mig á því að Idgie og Ruthie væru lesbíur en ég náði því einhvernvegin um leið og ég byrjaði að horfa á myndina í þetta skipti.
Margir eru víst pirraðir yfir því hvernig var skautað yfir það að nefna það beint að þær ættu í lesbísku sambandi en myndin fékk samt sem áður verðlaun frá GLAAD fyrir besta lesbíska efnið.
Annað sem ég ég uppgötvaði þegar ég horfði á myndina eftir allan þennan tíma er hve mikið er hægt að læra af henni og hve mikið ég sjálf hef líklega lært af henni þar sem ég horfði á hana oftar en einu sinni og oftar en 30 sinnum þegar ég var að alast upp. Myndin er feminísk út í gegn og kennir manni að vera góður við alla, sama hver kynhneigð þeirra er, húðlitur eða samfélagsstaða en á sama tíma ekki taka við kjaftæði frá neinum. Myndin á því enn í dag fullt erindi til allra og ég gæti eigilega ekki mælt meira með henni. Hún er frábær.
Eftir að hafa horft á Fried Green Tomatoes aftur eftir allan þennan tíma verð ég bara að segja Notebook hvað? Næst á dagskrá hjá mér er svo bara að láta loksins verða að því að lesa bókina.
Ég mæli með að allir sem vantar góðan grát og að horfa á fallega ástarsögu kíki á Fried Green Tomatoes um helgina.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=-Gf4_PC3lg4[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.