Það er loksins komið að því að skrifa um myndina sem er eiginlega ástæðan fyrir því að ég byrjaði að skrifa um gleymdar 90’s kvikmyndir.
Þessi mynd er kannski ekki neitt sérstaklega gleymd þar sem hún var aldrei neitt sérstaklega stór á sínum tíma heldur átti frekar, og á enn í dag, svokallaðan “cult-following”.
Can’t Hardly Wait (1998) er samt engin týpísk költ mynd.
Hún er eiginlega bara mjög týpísk 90’s bandarísk unglingamynd um krakka í framhaldsskóla, nema bara svo miklu skemmtilegri en meirihluti þeirra.
Myndin fjallar um einn dag í lífi nemenda í Huntington High, nánar tiltekið útskriftarpartý við skólann. Í myndinni fáum við að skyggnast inn í líf vinsælu krakkanna og nördanna og allra þar á milli.
Það eru frekar margir leikarar sem leika í Can’t Hardly Wait sem eru þekktir en sá sem er frægastur er líklega Jason Segel sem kemur fram í pínulitlu hlutverki þar sem hann gælir við vatnsmelónu og segir að Velma úr Scooby-Doo sé “a hip-hip lady” (sem er tilvitnun í Dazed and Confused), en Can’t Hardly Wait var hans fyrsta hlutverk.
Fyrir utan hann má nefna:
- Jennifer Love Hewitt
- Ethan Embry (That Thing You Do!)
- Seth Green
- Lauren Ambrose (Six Feet Under)
- Peter Facinelli (Twilight)
- Donald Faison (Clueless)
- Jaime Pressly (My Name Is Earl)
- Chris Owen ( Sherminator – American Pie)
- Clea DuVall (Argo)
- Selma Blair (Legally Blonde)
- Jenna Elfman (Dharma & Greg)
- Melissa Joan Hart (Sabrina the Teenage Witch
- Breckin Meyer (Clueless) og…
- Jerry O’Connell (Stand By Me)
Svo eru mun fleiri andlit í myndinni sem þú munt kannast við en þetta eru þau helstu!
3 ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Can’t Hardly Wait:
1. William Lichter leikinn af Charlie Korsmo
Can’t Hardly Wait er seinasta myndin sem þessi snillingur lék í en 7 árum áður hafði hann tilkynnt að hann væri hættur að leika. Hann hafði þá verið nokkuð þekktur sem barnaleikari og lék meðal annars í Dick Tracy og Hook.
Eftir að hann tilkynnti að hann væri hættur í leiklistinni (1991) fór meirhluti þeirra hlutverka sem honum var boðið til Elijah Wood.
Í dag er hann útskrifaður með eðlisfræðigráðu frá M.I.T. og með lögfræðigráðu frá Yale og vinnur sem lögfræðiprófessor við Case Western Reserve University.
2. Kenny Fisher a.k.a. Special K
Það er mjög líklega Seth Green að kenna að ég hef alltaf heillast smá af rauðhærðum strákum og að ég set hæð stráka oftast ekki fyrir mig. Ég lagði á mig að horfa á alla My Stepmother is an Alien fyrir hann þegar hún var sýnd á RÚV í gamla daga (og já hún er eins slæm og hún hljómar) þó ég hafi að vísu látið Buffy alveg vera…maður gerir nú ekki allt fyrir ástina…
En Special K var klárlega uppáhalds karakterinn minn sem hann lék og hann mun alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu, meira að segja sérstakari en Scott Evil og Chris Griffin og ég verð alltaf smá leið þegar ég googla Special K (sem okei gerðist í fyrsta skipti í dag) og það kemur bara upp kornflex.
3. Hræðilega aldamótatískan
Ég hef lengi sagt það og ég held að ég hafi seinast sagt það í gær, að tískan í kringum 2000 er leiðinlegasta og ljótasta tíska sem ég veit um… og já þá er ég að telja hápunkta níunda áratugarins með!
Mig langar til að segja að mig hafi ekki dreymt blauta drauma um ótrúlega generic og leiðinlega dressið sem Jennifer Love Hewitt er í í myndinni og mig langar til að segja að ég hafi aldrei haldið á svona sundgleraugum eins og Seth Green er með á hausnum og velt fyrir mér hvort ég ætti að kaupa mér svoleiðis… mig langar til að segja það en það er einfaldlega ekki satt.
Dressið sem Jennifer er í hafði meira að segja að mikil áhrif á líf mitt að í sirka tvö ár keypti ég varla nýja flík án þess að hún væri blá… ég get því stolt sagt frá því að vegna Can’t Hardly Wait átti ég, alveg eins og Picasso forðum daga, blátt tímabil. Mitt bláa tímabil varð bara sem betur fer ekki neitt sérstaklega frægt þó ég sé viss um að eitthvað hafi verið pískrað um það án þess að ég heyrði til.
Eins og glöggir átta sig eflaust á þá var ég (og er jafnvel ennþá) með smá þráhyggju þegar kemur að þessari mynd.
Ég veit held ég ekki meira um neina aðra mynd og ég hef meira að segja horft á hana á DVD með tali frá leikstjóranum og aðalleikurum yfir, já ég er sú pía! Ég er það obsessed af þessari mynd að þetta er eina myndin sem ég hef skrifað um sem fimmtudagsmynd og ég þurfti ekki að horfa á hana áður af því ég veit nú þegar allt um hana.
Skemmtilegar staðreyndir um Can’t Hardly Wait:
- Þessi tvö áttu þremur árum seinna eftir að leika kærustupar í sjónvarpsþáttunum Six Feet Under
- Og tveir aðrir leikarar í myndinni, Freddy Rodriguez og Peter Facinelli, áttu líka eftir að leika í Six Feet Under.
- Þegar Denise og Special K eru föst inn á baðherbergi voru Lauren og Seth nýbúin að horfa á kvikmynd um leiklistartækni þar sem mælt var með því að mótleikarinn sem væri “off-camera” myndi öskra svívirðingar á þann sem væri “on-camera” þegar hann ætti að líta út fyrir að vera óöruggur eða líða óþægilega. Þau léku þess vegna flestar senurnar á baðherberginu á þann hátt.
- Þegar haft var samband við Ethan Embry á seinasta ári vegna þess að myndin væri orðin 15 ára gömul mundi hann varla eftir því að hafa leikið í henni af því hann reykti svo mikið gras á þessum tíma, þetta útskýrði fyrir mér af hverju hann er alltaf svona skrýtinn til augnanna í myndinni…
- Það voru tveir heilir karakterar klipptir út úr myndinni “Super Drunk Girl” og “Stoner Girl” og einnig var slatti af atriðum þar sem Jason Segel er orðinn nokkuð klúr með vatnsmelónunni sinni klippt út til þess að ná myndinni niður í PG-13 sem framleiðendur myndarinnar vonuðu að yrði til meiri aðsóknar. Myndin halaði inn 25 milljónum bandaríkjadala á meðan hún var í kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum á meðan American Pie sem var R-rated og kom út ári seinna fékk 4 sinnum meira.
- Einu atriði var líka bætt við myndina til að ná í PG-13 en það er atriðið í fangelsinu.
- Brian Klugman sem sést hérna með Charlie Korsmo var einn þeirra sem átti þátt í því að skrifa TRON: Legacy
- Jerry O’Connell sem leikur Trip McNealy í myndinni hefur sagt að lýsa mætti Can’t Hardly Wait sem Superbad tíunda áratugsins.
- Ástæðan fyrir því að Peter Facinelli sýnir ekki aðra hliðina af andlitinu í sumum atriðum í myndinni er sú að hann var nýbúinn að eignast barn sem hafði klórað hann svo illa í annað augað að hann gat ekki haldið því opnu.
- Karakterinn sem Peter Facinelli leikur heitir sama nafni og draumaprinsinn hennar Liz Lemon í 30 rock, astronaut Mike Dexter.
- Seth Green vildi fyrst fá hlutverk William Lechters, Ethan Embry var svo boðið hlutverkið en neitaði því, þriðji leikarinn lék svo William í nokkra daga en var svo rekinn og að lokum fengu framleiðendurnir Charlie Korsmo til að leika hinn eftirminnilega William.
- Peter Facinelli fékk hlutverk Mike Dexter með því að labba inn í áheyrnarprufuna og byrja strax að gera armbeygjur.
- Alexander Martin sem leikur skiptinemann er barnabarn Dean Martin.
Ef þú misstir af Can’t Hardly Wait á tíunda áratugnum mæli ég með því að þú kíkir á hana um helgina, ef þú sást hana þá þá mæli ég með því að þú kíkir á hana aftur!
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=67dfnrTJlUE[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.