Ég var heilluð af myndinni Benny & Joon frá fyrstu mínútu einfaldlega vegna upphafslagsins í myndinni.
Í mörg ár eftir að ég sá þessa mynd fyrst var 500 miles með The Proclaimers allra uppáhaldslagið mitt og ég er hissa á að vínyllinn hennar mömmu með laginu sé ekki úr sér genginn núna 20 árum seinna.
Benny & Joon (1993) fjallar um systkinin Benny (Aidan Quinn – Legends of the Fall) og Joon (Mary Stuart Masterson – Fried Green Tomatoes). Joon þjáist af geðsjúkdómi, sem ekki er skilgreindur í myndinni, og þarf að vera undir stöðugu eftirliti. Benny sér að mestu leyti um systur sína en vinnur þó á daginn og fer einu sinni í viku í póker með vinum sínum þar sem lagðir eru undir nær verðlausir hlutir líkt og köfunargrímur, beltissylgjur og frændi sem vinur Bennys kærir sig ekki um. Eitt kvöldið tekur Joon þátt og tapar og hún og Benny sitja uppi með skrýtna frændann, Sam (Johnny Depp), sem er ólæs og óskrifandi. Samband Bennys, Joon og Sam leiðir svo af sér skemmtilega og á stundum smá óraunverulega atburðarrás!
Fyrir utan aðalhlutverkin þrjú eru nokkur vel þekkt andlit sem má finna í Benny & Joon. Julianne Moore er æðisleg í hlutverki sínu sem Ruthie þó ég verði að segja að mér finnist hún nú alltaf verða betri og fallegri með aldrinum, Oliver Platt (X-Men: First Class, Love and Other Drugs) er búinn að vera í uppáhaldi hjá mér lengi og hann er í litlu hlutverki í þessari mynd. Einnig eru William H. Macy (Fargo, Pleasantville), Dan Hedaya (Clueless, A Night at the Roxbury) og CCH Pounder (Avatar, The Shield)í litlum hlutverkum í myndinni.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Benny & Joon:
1. Johnny Depp
2. Johnny Deep
3. Johnny Depp
Nei okei…það er mun fleira gott og skemmtilegt við þessa mynd en Johhny Depp, hann er bara svo flottur í þessari mynd og að mínu mati hefur hann aldrei verið meira heillandi en akkúrat í þessu hlutverki (vona að það segji ekkert um mig að heillast af honum í þessu hlutverki en…).
Ég er til dæmis alveg sannfærð um að æði heimsbúa fyrir drykkjum gerðum í blandara hafi fyrst byrjað eftir að Joon sást blanda Captain Crunch Smoothie-inn sinn! (Uppskrift má finna hér)
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=j3WeBjCq5ik[/youtube]
Og bara svona til að koma aðeins meiri Johnny hérna að þá eru eldunaraðferðir Sams og öll meðhöndlun hans á mat í myndinni líka nokkuð frumleg:
Brauðadansinn frægi sem er að sjálfsögðu apaður upp eftir Chaplin:
Kartöflustappa gerð með tennisspaða:
Samlokur grillaðar með straujárni:
Skemmtilegar staðreyndir um Benny & Joon:
- Johnny Depp var tilnefndur til Golden Globe verðlauna fyrir frammistöðu sína.
- Tom Hanks, Julia Roberts, Woody Harrelson, Tim Robins, Susan Sarandon og Laura Dern komu öll til greina fyrir aðalhlutverkin. (Ég vil samt meina að hið fullkomna leikaralið hafi að lokum verið valið)
- Mary Stuart Masterson stakk upp á því að nota 500 Miles með The Proclaimers í myndina.
- Johnny Depp gerði öll stunt-in sín sjálfur, þar með talið þetta atriði: [youtube]http://www.youtube.com/watch?v=osAHjOPYOyE[/youtube]
Í seinni tíð hefur myndin verið gagnrýnd fyrir að taka of létt á geðsjúkdómum og þeim alvarlegu afleiðingum sem þeim fylgja og vissilega tekur hún létt á þeim málefnum. En sem manneskja sem þekki geðsjúkdóma vel, þó ekki á eigin skinni, þá verð ég að segja að mér finnst persónulega í fínu lagi að sína stundum léttu hliðarnar á þessu alvarlega málefni. Ef maður rýnir svo aðeins dýpra í Benny & Joon en bara spaugilegu hliðina þá sýnir hún dágóðan slatta af alvarlegum hlutum sem þeir sem þjást af geðsjúkdómum þurfa að kljást við og það sem aðstandendur þeirra þurfa oft að kljást við. Það var og er enn í dag ennþá of algengt að þeir sem þjást af geðsjúkdómum í kvikmyndum séu alltaf sýndir sem gjörsamlega óvirkir samfélagsþegnar og/eða sem bandbrjálaðir morðingjar eða níðingar og Joon er hvorugt.
Ég mæli innilega með Benny & Joon fyrir alla sem vantar “feel-good” mynd fyrir helgina! Það eina sem ég hef út á að setja er alltof ofspilaða þemalagið sem spilað er á mínútufresti í gegnum alla myndina (sorry núna þegar ég er búin að benda þér á það kemstu ekki hjá því að láta það fara í taugarnar á þér) en hey myndin er frábær fyrir utan það og hver getur líka neitað sér um heilar 98 mínútur með þessum:
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=-ZFJ7WBP7w8[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.