Það eru fáar bíóferðir sem ég hef farið í eins skemmtilegar og sú sem ég fór ásamt slatta af bekkjarsystkinum mínum á The Others þegar ég var 14 ára.
Hún velti að minnsta kosti lófasveittu bíóferðinni á Notting Hill með fyrsta kærastanum mínum úr fyrsta sætinu. The Others er nú hægt að finna á Netflix sem er mjög mikið fagnaðarefni því þetta er frábær mynd.
Ég er ekki mikið fyrir hryllingsmyndir sem hafa þann eina tilgang að hræða mann en svo er enginn merkilegur söguþráður þar að baki. The Others náði algjörlega að halda mér allann tímann án þess að þurfa að reiða sig á einhvern viðbjóðslegan hrylling.
Ég elskaði ég þessa bíóferð, meðal annars af því þetta var fyrsta bannaða myndin sem við vorum að fara á í bíó og vorum búin að tjúna hvort annað svo upp í hræðslunni að vinkona mín öskraði hástöfum yfir allt bíóið þegar kúlan sprakk í þessari THX auglýsingu áður en myndin byrjaði (á 6:06).
3 ástæður fyrir því að þú verður að sjá The Others
The Others (2001) fjallar um Grace (Nicole Kidman) sem býr í stóru húsi á lítilli eyju með börnunum sínum, sem bæði eru með alvarlegt sólarofnæmi, á meðan maðurinn hennar berst í stríðinu.
Einn daginn hverfur þjónustufólkið hennar á meðan hún sefur. Þegar nýja þjónustufólkið kemur fara svo undarlegir atburðir að gerast.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá The Others:
1. Krakkarnir
Það er alveg meira en undarlegt að þessi börn hafa ekki haldið áfram að leika þau eru svo mikil snilld í þessari mynd!
2. Tíminn og stemmingin
Það er alltaf eitthvað svo heillandi við kvikmyndir sem gerast á öðrum tíma en okkar eigin. Að fylgjast með tískunni, innréttingunum og aðstæðunum sem fólk bjó við er skemmtilegur plús við þessa mynd. Þetta gefur líka akkúrat rétta stemmingu fyrir atburðum myndarinnar og gerir mann temmilega stressaðann yfir öllu sem gerist. Leikur Nicole Kidman ýtir svo enn frekar undir þá tilfinningu.
3. Christopher Eccleston
Sem forfallinn Dr. Who aðdáandi þá varð ég bara að finna leið til að minnast á þennan mann…ég elska hann svo mikið!
FRÓÐLEGAR STAÐREYNDIR UM THE OTHERS:
- Myndin byrjar á setningunni: “Now children, are you sitting comfortably? Then I’ll begin.” Breski útvarpsþátturinn “Listen with Mother” sem var í loftinu frá 1950-1982 byrjaði alltaf á nærri því nákvæmlega sömu setningunni. Doctor Who aðdáendur gætu svo mögulega líka munað eftir setningunni úr þættinum “The Idiot’s Lantern” þar sem karakter sem bar nafnið “The Wire” notaði sömu setningu.
- Það má finna bæði handritshöfund og leikstjóra myndarinnar á myndunum í albúminu sem Grace finnur.
- Nicole Kidman leikur aðalhlutverkið í myndinni og Tom Cruise framleiddi hana, þetta var seinasta verkefnið sem þau unnu að saman en skilnaður þeirra gekk í gegn viku eftir frumsýningu myndarinnar.
- Myndin er tekin upp á Spáni og henni er leikstýrt og hún er skrifuð af Spánverjanum Alejandro Amenábar og er því í rauninni spænsk mynd. Hún er líka fyrsta myndin sem fékk hin virtu Goya kvikmyndaverðlaun sem ekki er talað eitt orð af spænsku í.
- Það er til Bollywood endurgerð af þessari mynd sem heitir Hum Kaun Hai.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.