Tinna eik skrifar um skemmtilegar myndir á Netflix
Ég skammast mín smá fyrir að segja frá því að ég lét langan tíma líða þar til ég horfði á Rosemary’s Baby. Af hverju hefur manneskja sem segist vera kvikmyndaunnandi aldrei séð Rosemary’s Baby gæti einhver spurt sig? Kannski af því ég er búin að eyða of miklum tíma í að horfa á Clueless yfir 100 sinnum…en svo kom að því! Rosemary’s Baby er á Netflix og nú er ég loksins með á nótunum þegar fólk vitnar í þessa sögulegu kvikmynd.
Rosemary’s Baby (1968) fjallar um unga parið Rosemary (Mia Farrow) og Guy sem flytja inn í íbúðahús þar sem þau eru umkringd undarlegum nágrönnum og atvikum. Þegar Rosemary verður svo ólétt verður hún heltekin af hugsunum um öryggi barnsins sem hún ber undir belti.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá Rosemary’s Baby:
1. Af því allir hafa séð hana!
Ég veit, ég veit, maður á ekki að gera eitthvað bara af því allir hinir krakkarnir eru að gera það. En ef allir hinir krakkarnir eru að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi af hverju ekki að ganga í klúbbinn? Sérstaklega þegar það verður til þess að þú skiljir allar endalausu tilvitnanirnar sem eru í þessa mynd allsstaðar í kringum okkur.
2. Ruth Gordon
Þessi kona er bara hreinn og beinn snillingur í hlutverki sínu sem Minnie. Mia Farrow er líka frábær en Ruth Gordon er æði, enda vann hún eina Óskar ferils síns fyrir þetta hlutverk.
Ef þú elskar hana svo jafn mikið og ég í þessari mynd horfðu þá næst á Harold & Maude sem er samt því miður ekki hægt að á á Netflix en er stórkostleg!
3. Tímamunurinn…eða ekki…
Samskipti hjónanna Rosemary og Guy vekja með manni ugg og þá ekki bara vegna þess að mestan hluta af myndinni er maður að velta því fyrir sér hvort Rosemary sé að missa vitið eða ekki. Þau vekja með manni ugg af því að þau fá mann til þess að hugsa til þess hvernig samskipti kynjanna voru á þessum tíma og láta mann sjá hvað vald karlmannsins í sambandi við konur hefur greinilega oft verið algjört.
Það er líka mjög “krípí” að hugsa til þess að svona er þetta eflaust í mörgum samböndum um allann heim enn í dag. Allt frá því hvernig dagur Rosemary snýst um það að bíða eftir manninum sínum heim úr vinnunni til þess hvernig hann gerir athugasemdir um nýju hárgreiðsluna hennar er eitthvað sem fór alveg stórlega fyrir brjóstið á mér og bætti bara enn frekar ofan á annann hrylling í myndinni.
Þrátt fyrir að vera hryllingsmynd, eða kannski frekar spennutryllir, þá er myndin öll mjög sjónrænt falleg og það er greinilega vel hugsað út í það hvernig umhverfið harmónerar með atriðum og persónum. Það er byggt upp spennu á skemmtilegan hátt og þrátt fyrir að vera komin þetta vel til ára sinna heldur þessi mynd manni vel við efnið allann tímann.
FRÓÐLEGAR STAÐREYNDIR UM ROSEMARY’S BABY:
- Atriðið þar sem Rosemary gegur kasólétt út í umferðina var tekið upp á alvöru umferðargötu í New York. Enginn bílstjóranna sem voru að keyra þarna um vissu af upptökunni og leikstjóri myndarinnar þurfti að sannfæra Miu vel og lengi um að fara út í umferðina “af því enginn myndi keyra á ólétta konu”, hann þurfti svo að vera sjálfur með myndavélina því enginn af kvikmyndatökumönnunum treystu sér út á götuna.
- Frank Sinatra skildi við Miu vegna þess að hún tók hlutverk í þessari mynd en hann hafði tekið af henni loforð um að hún myndi gefa feril sinn upp á bátinn þegar þau myndu giftast. Hann mætti á sett um miðjar tökur og rétti henni skilnaðarpappírana fyrir framan alla leikarana og aðra sem unnu að myndinni. Mia bað um að fá að komast út úr samningnum en var sannfærð af framleiðendum myndarinnar um að halda áfram eftir að fá að horfa á upptökur af því sem þegar hafði verið tekið upp sem voru það góðar að framleiðendurnir sögðu að hún yrði tilnefnd til Óskarsverðlauna, sem gerðist svo ekki.
- Myndin er byggð á skáldsögu og er oft sögð vera sú mynd sem fylgir sögunni sem hún er byggð á einn best.
- Jane Fonda hafnaði hlutverki Rosemary þar sem hún var upptekin að leika í Barbarella.
Það eina sem mælir ekki með þessari mynd er að henni er leikstýrt af Roman Polanski sem vissulega er snillingur á leikstjórnarsviðinu, en eitthvað svolítið langt þar fyrir neðan á öðrum sviðum.
En fyrir þá sem þola það og fyrir þá sem elska spennutrylla og gamlar kvikmyndir mæli ég svo sannarlega með Rosemary’s Baby.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.