A League of Their Own er ein af þeim myndum sem ég horfði reglulega á á mínum uppvaxtarárum. Áhorfið á myndina var í rauninni ekki vegna þess að mér þætti hún svo frábær heldur var hún bara svo oft í hádegisbíóinu á Stöð 2 og svo seinna á Bíórásinni…
Á þessum árum, þegar valið stóð á milli þess að horfa á það sem var í sjónvarpinu eða út um gluggann, varð oft eitthvað fyrir valinu sem var kannski ekki það sem manni fannst það allra skemmtilegasta (Handlaginn heimilisfaðir til dæmis???).
Eftir á að hyggja hefði ég kannski átt að velja mér eitthvað uppbyggilegra að gera en ég er samt einstaklega þakklát fyrir að hafa ekki misst af þessari kraftmiklu mynd á mínum uppvaxtarárum.
A League of Their Own (1992) fjallar um hafnaboltadeild fyrir konur sem stofnuð var á tíma seinni heimstyrjaldarinnar.
Deildin var upphaflega stofnuð vegna þess að margar aðalstjörnurnar í hafnarbolta höfðu verið kallaðar til herþjónustu og eigendur hafnarboltaliðanna vildu ekki að vellirnir stæðu tómir.
Myndin er byggð á atburðum í kringum byrjun deildarinnar en flest annað í myndinni er skáldskapur.
Söguþráðurinn fylgir systurunum Dottie og Kit sem spila fyrir Rockford Peaches; Dottie er sterk og örugg með sjálfa sig og greinilegt uppáhald í fjölskyldunni sem og í heimabæ þeirra systra.
Kit er hins vegar óörugg og komin með leið á því hvað stóra systir hennar skyggir alltaf á hana. Þegar þær fara að spila saman í sama liðinu sýður fljótlega upp úr og Kit fer yfir í annað lið í deildinni.
Það eru margir þekktir leikarar í myndinni þar á meðal: Geena Davis, Rosie O’Donnell, Tom Hanks, Madonna, Jon Lovitz og Bill Pullman.
Þrjár ástæður fyrir því að þú VERÐUR að sjá A League of Their Own:
1. Girl Power
Þó að sagan í myndinni sé ekki sönn þá er hún byggð á sönnum atburðum og sýnir vel hvernig staða kvenna var á þessum tímum.
Konur náðu að sanna sig og sýna að þær gætu alveg gert eins vel og karlmennirnir og dregið að mikið áhorf. Þó að forsvarsmenn deildarinnar eigi hrós skilið fyrir að stofna hana má samt sjá kynjamismununina í búningum kvennanna sem voru ekki hentugir til að spila í hafnarbolta og á því að allir leikmenn deildarinnar þurftu að fara í kvöldskóla Helenu Rubenstein þar sem þær lærðu að vera “alvöru dömur”.
Femínismi er oft gagnrýndur fyrir það að fjalla aðeins um hvítar konur og eitt fallegasta augnablikið í A League of Their Own er þegar hópur af svörtu fólki sést standa utan vallar að fylgjast með leiknum. Ein kvennanna úr hópnum kastar svo bolta inn á völlinn af mikilli snilli. Með þessu er sýnt á mjög fallegan hátt að þó að kvennadeildin í hafnarbolta hafi verið skref fram á við í jafnréttisbaráttunni þá hafi samt sem áður verið aðrir sem enn voru utangarðs.
2. Geena Davis
Mér finnst hún bara alltaf vera svo mikill töffari. Hún er hörku leikkona, flottur femínískur aktívisti og vissir þú að árið 1999 var hún 24 besta bogfimikonan í Bandaríkjunum? Talandi um að vera á undan tískunni!
Geena Davis landaði aðalhlutverkinu í myndinni aðeins nokkrum vikum áður en tökur hófust og fór strax í stranga þjálfun ásamt hinum leikkonunum sem voru búnar að vera að þjálfa í allt að hálft ár sumar hverjar. Geena náði þeim rétt um það bil sem tökur hófust og var í lokin orðin betri í hafnarbolta en flestar þeirra…uuu já sagði ég ekki að hún væri töffari?
3. Madonna í trylltum dansi
Madonna hataði víst að leika í þessari mynd sem mér finnst vera smá kaldhæðnislegt þar sem þetta er hennar besta hlutverk fyrr og síðar. Hún hataði að vera umkringd bara stelpum, hataði samstarfsfólk sitt, hataði Chicago þar sem myndin er tekin, hataði að þar væru engir heitir karlmenn að gamna sér með og hataði að starfið fæli ekki í sér neinn lúxus. Madonna er greinilega alveg hressa pían!
En hún náði allavega að leika hlutverkið það vel að það sést engan veginn á henni að hún hafi hatað þetta og dansar meira að segja af mikilli snilli í einu atriðinu í myndinni og ég elska auðvitað ALLTAF dansatriði!
Ég myndi segja að þessi mynd sé “must-see” fyrir alla! Þó það sjáist alveg að hún sé ekki gerð í gær og leikur og leikstjórn séu ekki alltaf upp á fulla 10 þá er hún fræðandi, skemmtileg og meira að segja mjög fyndin á köflum.
Svo þurfa auðvitað allir að sjá Tom Hanks segja eina af frægustu línu kvikmyndasögunnar:
Ég mæli með því að A League of Their Own verði skellt í tækið um helgina!
[youtube]http://youtu.be/WcN392H2jx0[/youtube]
P.S. Takið eftir því hve kaldhæðnislegt það er að í kvikmynd sem fjallar um kvenréttindi er Tom Hanks, sem er alls ekki í stærsta hlutverkinu í myndinni, talinn upp fyrstur af leikurum myndarinnar…ekki það að hann er samt algjör snilld í þessari mynd.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.