Fimmtíu skuggar frelsis er þriðja bókin og sú síðasta í þríleiknum um Christian Gray og Anastasiu Steel eftir: E L James
Christian og Anastasia halda áfram að lenda í óvæntum atriðum í þessari eldheitu ástarsögu.
Farið er dýpra í hina gráu skugga Christians og kynnist lesandinn persónu hans betur. Anastasia er orðin sjálfstæðari en hún var í byrjun þríleiksins en logar þó af afbrýðsemi út í allar sem girnast hennar seiðandi, lokkandi og ögrandi mann. Þau lenda í háska útaf fyrrverandi samböndum Christians og ágætis spennu er haldið uppi.
Ástarlífið þeirra gjörsamlega logar líkt og í hinum tveimur bókunum á undan og fær lesandinn að kynnast eldheitum heimi BDSM elskenda. Þó er góður húmor á milli línanna sem er engum líkur.
Lokakaflinn í bókinni er hreinn bónus, þar fær lesandinn að kynnast hugsunum Christians Gray og segir hann frá því þegar þau voru að kynnast: Hrokafullur, ögrandi og með dass af sjálfsöryggi lýsir hann því hvernig hann ætlaði sér að kynnast henni Anastasiu Steel.
Nú er bara að vona að E L James skrifi fleiri bækur um hinn dularfulla og seiðandi Christian Gray og ævintýraferðir hans um undraheima ástarlífsins.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.